Vararíkissaksóknari áminntur

Sigríður J. Friðjónsdóttir og Helgi Magnús Gunnarsson.
Sigríður J. Friðjónsdóttir og Helgi Magnús Gunnarsson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ríkissaksóknari hefur veitt Helga Magnúsi Gunnarssyni vararíkissaksóknara formlega áminningu vegna ummæla hans og orðfæris í opinberri umræðu á samfélagsmiðlinum Facebook sem m.a. vörðuðu hælisleitendur og samkynhneigða karlmenn.

Þetta staðfestir Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari við mbl.is og Morgunblaðið. Var áminningin veitt í gær, fimmtudag, á grundvelli laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.

Áminningin er veitt á þeim grundvelli að háttsemi vararíkissaksóknara utan starfs hans sem vararíkissaksóknari hafi verið ósæmileg og ósamrýmanleg starfi hans. Háttsemin hafi varpað rýrð á störf hans sem vararíkissaksóknari, á embætti ríkissaksóknara og ákæruvaldið almennt, sbr. 14. og 21. gr. laga nr. 70/1996, auk þess sem tjáning hans hafi grafið undan virðingu og trausti til embættis ríkissaksóknara og ákæruvaldsins almennt.

„Hér ber að undirstrika að vararíkissaksóknari er staðgengill ríkissaksóknara sem er æðsti handhafi ákæruvalds hér á landi. Vararíkissaksóknara ber því að vera öðrum ákærendum fyrirmynd í allri sinni framgöngu.

Ekki ber síður að árétta að áminning þessi varðar einungis háttsemi vararíkissaksóknara utan starfs en ekki störf hans sem vararíkissaksóknari sem engar athugasemdir hafa verið gerðar við,“ segir í skriflegu svari ríkissaksóknara við fyrirspurn mbl.is og Morgunblaðsins.

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari.
Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert