Framlög til heilbrigðismála hækka um 3,7 milljarða

Framlög til heilbrigðismála hækka um í kringum 3,7 milljarða króna að raunvirði frá fjárlögum fyrra árs og nemur hækkunin 1,2%. Þar vegur þyngst að fjárveitingar til heilbrigðisstofnana og sjúkratrygginga eru auknar um rúma þrjá milljarða króna til að koma til móts við aukna eftirspurn vegna fólksfjölgunar og öldrunar þjóðarinnar.

Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2023 sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti í morgun. Samtals nema útgjöldin til heilbrigðismála 320 milljörðum króna. 

Fjárheimild eykst um 1,2 milljarða króna vegna reksturs nýrra hjúkrunarrýma sem eru á framkvæmdaáætlun um byggingu hjúkrunarrýma sem er gert ráð fyrir að verði tekin í notkun á næsta ári.

Fjárheimild hækkar jafnframt um 1 milljarð króna vegna viðbyggingar Grensásdeildar Landspítala, auk þess sem 400 milljónir króna renna í endurbætur á sjúkrahúsinu á Selfossi.

Landspítalinn.
Landspítalinn. mbl.is/Unnur Karen

Til lækkunar vega á móti m.a. lækkun framlags til byggingar Nýs Landspítala á Hringbraut og byggingar nýrrar legudeildar við Sjúkrahúsið á Akureyri. Í frumvarpinu segir að framkvæmdaferlar hafi hliðrast í tíma og þannig í raun spornað gegn þenslu. Þungi framkvæmdanna verður þannig síðar en áætlað var.

Fjárheimildir falla einnig niður sem voru veittar til tímabundinna verkefna vegna Covid-19, svo sem 1,4 milljarðar vegna kaupa á bóluefni og 540 milljónir vegna farsóttardeildar Landspítala í Fossvogi, auk rekstrarframlags tli heilbrigðisstofnana vegna faraldursins.

Fram kemur að í krónum talið hafi framlög til heilbrigðismála aukist mest, eða sem svarar 40 milljörðum króna frá árinu 2020, sem er 14% aukning.

Bjarni Benediktsson er hann kynnti fjárlagafrumvarpið í morgun.
Bjarni Benediktsson er hann kynnti fjárlagafrumvarpið í morgun. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert