Styrkjum til fjölmiðla komið í góðan farveg

Lilja Dögg Alfreðsdóttir telur nefndarmenn fjárlaganefndar ekki hafa farið á …
Lilja Dögg Alfreðsdóttir telur nefndarmenn fjárlaganefndar ekki hafa farið á bak við sig. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, segir ákvörðun um að setja meiri pening í einkarekna fjölmiðla á landsbyggðinni vera birtingarmynd skoðana og áherslna meirihluta fjárlaganefndar. 

„Nefndarmenn, hvort sem þú sért í fjárlaganefnd eða efnahags- og viðskiptanefnd, hafa ákveðnar skoðanir og ákveðnar áherslur. Þarna birtist áhersla meirihluta fjárlaganefndar í því að hún telur að einkareknir fjölmiðlar úti á landi þurfi að fá meira vægi og þeir hafa núna látið mig fá það verkefni að gera úttekt á stöðu fjölmiðla á landsbyggðinni og rekstrarstöðu þeirra,“ segir Lilja í samtali við mbl.is.

Sjónvarpsstöðin N4 sendi beiðni til fjár­laga­nefnd­ar 1. des­em­ber um 100 milljóna króna styrk úr ríkissjóði. 

Gerð var breyt­ing­ar­til­laga að fjárlögum í kjölfarið sem fól í sér auk­inn stuðning við einka­rekna fjöl­miðla um 100 m.kr. „Fram­lagið er vegna rekst­urs fjöl­miðla á lands­byggðinni sem fram­leiða eigið efni fyr­ir sjón­varps­stöð,“ sagði í breytingartillögunni.

Ekki barst beiðni fyrir auknum styrkjum frá neinum öðrum landsbyggðarfjölmiðli en N4 og óvíst er hvert annað þetta fé ætti að fara.

Í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar í gærkvöldi var Lilju falið að endurskoða reglur um fjölmiðla á landsbyggðinni „í ljósi umræðu í fjölmiðlum“ um málið, en meðal þess sem kom fram í gærkvöldi var að María Björk Ingvars­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri N4, væri mág­kona Stef­áns Vagns Stef­áns­son­ar, nefnd­ar­manns í fjár­laga­nefnd.

Nefndin hafi ekki farið á bak við sig

„Formaður fjárlaganefndar greindi frá því að hann [Stefán] hafi ekki setið á þeim fundi þegar þetta var afgreitt, þannig að samkvæmt því tók hann ekki þátt í þessari ákvörðun. Það er jákvætt að aukið fé sé komið inn í þetta almenna fjölmiðlastyrkjakerfi,“ segir Lilja um tengsl Stefáns Vagns við N4.

Finnst þér að nefndin hafi farið á bak við þig í þessu máli?
„Nei fjárlaganefnd og nefndir eru bara í sinni vinnu og koma með tillögur og annað slíkt. Þessu var svo komið í góðan farveg eins og við erum búin að gera,“ segir Lilja.

„Þessar 100 milljónir fara inn í almenna fjölmiðlastyrkjakerfið fyrir árið 2023. Meirihluti fjárlaganefndar hefur falið ráðherra að endurskoða þær reglur sem eru í gildi um rekstrarstuðning við einkarekna fjölmiðla á landsbyggðinni þar sem það er aukið tillit tekið til þeirra sem framleiða efni fyrir sjónvarp. Gerð verður úttekt á rekstrarstöðu fjölmiðla á landsbyggðinni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina