Um 550 jarðskjálftar frá miðnætti

550 skjálftar hafa mælst frá miðnætti við Grímsey.
550 skjálftar hafa mælst frá miðnætti við Grímsey. mbl.is/Sigurður Bogi

Hægt hefur aftur á skjálftavirkninni fyrir norðan við Grímsey en um 550 jarðskjálftar hafa mælst frá miðnætti. Sá stærsti var 2,7 að stærð.

Á sama tíma í gær höfðu ríflega 750 jarðskjálftar mælst frá miðnætti, þar af einn yfir fjórum stigum og 15 yfir þremur að stærð samkvæmt óyfirförnum skjálftamælingum.

Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að bæði hafi hægt á virkninni síðastliðinn sólarhring og að skjálftarnir séu orðnir minni.

Spennulosun geti tekið nokkra daga

Engin merki hafa verið um gosóróa og er talið að skjálftarnir verði vegna spennulosunar á flekaskilum.

Að sögn Lovísu er ómögulegt að segja til um hversu lengi hrinan getur staðið yfir en svona hrinur geti varað í nokkra daga og er mismunandi hvað það tekur langan tíma fyrir spennulosunina að eiga sér stað.

mbl.is