Yrðu líklega vör við eldgos nálægt Grímsey

Grímsey.
Grímsey. mbl.is/Sigurður Bogi

„Ég held að ef það færi í gang eitthvað kröftugt eldgos þá yrðu menn varir við það,“ segir Bryndís Brandsdóttir, jarðeðlisfræðingur og vísindamaður við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is um mögulega eldvirkni nálægt Grímsey.

Töluvert hefur verið um jarðskjálftavirkni nálægt Grímsey að undanförnu. Stærsti skjálftinn varð 8. september, 4,9 að stærð.

Bryndís segir að ef kröftugt eldgos myndi hefjast á hafsbotni í kringum Grímsey myndi það að öllum líkindum ekkert fara á milli mála.

Varðskipið Þór sé á svæðinu og mikið af dagróðrarbátum sem fara frá Grímsey út á Nafirnar til veiða.

Óvíst hvenær eldfjöllin gusu

Bryndís Brandsdóttir.
Bryndís Brandsdóttir.

Bryndís segir að gera þyrfti mælingar á svæðinu til þess að sjá hvort lítið eldgos myndi finnast á hafsbotni. 

„Ef það er eitthvað hraun sem rennur á hafsbotni þá væntanlega hitnar sjórinn í kringum það og það er hægt að mæla það. Kannski breytist efnasamsetning eitthvað í sjónum sem hægt er að skoða og væntanlega kemur upp gas á yfirborðið,“ segir Bryndís.

„Það eru þarna eldfjöll á hafsbotni en við vitum ekkert hvenær síðast gaus þar. Það er ekki eins mikil eldvirkni þarna við Grímsey, eins og er norðar á svæðinu.“

Sýni til marks um nýlegt hraun

„Það er ástæða til þess að mæla svona svæði aftur þegar svona gerist, ef maður vill virkilega fylgjast með þeim eins og maður fylgist með á landi, en það er náttúrulega erfiðara úti á sjó,“ segir Bryndís.

„Ég hef undir höndum sýni af hafsbotninum við Stóragrunn sem er þarna norðar, sem er mjög nýlegt hraun, en það er enginn sem veit nákvæmlega hvenær það myndaðist.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert