Gætti hvorki að leiðbeiningarskyldu né rannsóknarreglu

Umboðsmaður minnti á að markmið leiðbeiningarskyldunnar er m.a. að koma …
Umboðsmaður minnti á að markmið leiðbeiningarskyldunnar er m.a. að koma í veg fyrir að fólk glati rétti sínum vegna mistaka, vankunnáttu eða misskilnings. Myndin er úr safni. mbl.is/Arnþór

Kærunefnd húsamála gætti hvorki að leiðbeiningarskyldu sinni né rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar þegar hún hafnaði kröfum manns á hendur sveitarfélagi vegna ætlaðra galla á félagslegu húsnæði.

Þetta kemur fram á vef umboðsmanns Alþingis. 

Þar segir, að úrskurður nefndarinnar hafi einkum byggst á því að engin gögn styddu þá annmarka sem borið var við að væru á húsnæðinu. Við meðferð málsins upplýsti maðurinn nefndina á hinn bóginn um að hann hefði leitað til lögreglu sem hefði í kjölfarið bókað að mikil kannabislykt væri í geymslu hans. Maðurinn lagði bókun lögreglu þó ekki fram og nefndin leiðbeindi honum ekki um að gera það.

Þá kemur fram, að umboðsmaður hafi minnt á að markmið leiðbeiningarskyldunnar sé m.a. að koma í veg fyrir að fólk glati rétti sínum vegna mistaka, vankunnáttu eða misskilnings. Í kjarna rannsóknarreglunnar felist svo að stjórnvaldi beri, að eigin frumkvæði, að sjá til þess að nauðsynlegar og réttar upplýsingar liggi fyrir til að hægt sé taka rétta ákvörðun í máli. Leggja verði til grundvallar að nefndinni hafi verið kunnugt um að maðurinn hefði í fórum sínum gagn sem gæti stutt kröfur hans eða hann gæti aflað þess frá lögreglu.

Í ljósi skyldu nefndarinnar til að leiðbeina og rannsaka málið hefði hún átt að vekja athygli mannsins á að gögn skorti, gefa honum færi á að bæta úr því og leiðbeina um afleiðingar þess ef það yrði ekki gert. Þar sem enginn reki hefði verið gerður að því að afla þessara upplýsinga taldi umboðsmaður að málsmeðferð nefndarinnar hefði ekki verið í samræmi við lög.

Beindi hann því til nefndarinnar að taka málið fyrir aftur ef eftir því yrði leitað og leysa þá úr því í samræmi við sjónarmiðin í álitinu, að því er fram kemur á vef umboðsmanns Alþingis. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert