Sony Music skellir í lás á Íslandi

Aron Can er einn þeirra listamanna sem voru á dreifingarsamningi …
Aron Can er einn þeirra listamanna sem voru á dreifingarsamningi hjá Sony Music á Íslandi.

Í lok október mun starfsemi skrifstofu Sony Music hér á landi verða formlega lögð niður, en eftir það verða allir listamenn sem Sony Music dreifir tónlist fyrir að vera í tölvupóstsamskiptum við dönsku skrifstofuna í Kaupmannahöfn. Þetta kemur fram í tilkynningu sem félagið sendi á tónlistarfólk sem það á í samstarfi við.

Þá verða jafnframt allir þættir dreifingar á íslenskum útgáfum í höndum dönsku skrifstofunnar.

Þekktustu tónlistarmenn landsins

Sony Music Entertainment er annað stærsta plötu- og útgáfufyrirtæki heims með um 44 útibú víðs vegar um heiminn. Sony Music Ísland hefur verið hluti af stærri skrifstofu hjá Sony í Danmörku, en nú er ljóst að öll starfsemi fyrirtækisins á Íslandi mun leggjast af.

Sony Music er með dreifingarsamning við margt af þekktasta tónlistarfólkinu hér á landi. Meðal þeirra eru Herra Hnetusmjör, Mugison, Aron Can, GDRN, Ragga Gröndal, Karítas og Moses Hightower svo nokkrir séu nefndir.

Uppfært: Greint var frá því að tónlistarmenn gætu aðeins haft samband við Sony Music í gegnum tölvupóst í kjölfar þessara breytinga og ekkert gefið upp um símanúmer. Rétt er að tónlistarmenn munu áfram hafa sama aðgang að starfsfólki skrifstofunnar, hvort sem er í gegnum síma eða tölvupóst.

mbl.is