Ríkið endurgreiði þrotabúi DV 40 milljónir

Hæstiréttur hefur nú staðfest dóm héraðsdóms í málinu.
Hæstiréttur hefur nú staðfest dóm héraðsdóms í málinu. mbl.is/Odd

Hæstiréttur Íslands hefur staðfest að rifta skuli greiðslu á skuld DV ehf. við íslenska ríkið, frá því í september 2017, upp á rúmar 40 milljónir króna. Íslenska ríkið þarf því að endurgreiða þrotabúi DV 40.339.542 krónur með dráttarvöxtum. Hafnað var kröfu um riftun á 85 milljóna króna skuld.

Forsaga málsins er sú að í september 2017 gerði DV samning við íslenska ríkið um greiðslu á skuldum sínum, gegn því að ekki yrði krafist gjaldþrotaskipta eða gripið til annarra vanefndar úrræða. Daginn eftir greiddi svo Pressan ehf. móðurfélag DV inn á skuldir DV hjá íslenska ríkinu.

Pressan greiddi skuld DV

Í september ári síðar lýsti þrotabú DV yfir riftun á ellefu greiðslum opinberra gjalda DV til íslenska ríkisins, frá því í maí 2017 og fram í desember sama ár. Fallist var á að rifta níu greiðslum en hafnað riftun tveggja greiðslna, upp á rúmar 40 milljónir króna og svo upp á rúmar 85 milljónir króna.

Taldi íslenska ríkið þær ekki riftanlegar þar sem þær hefðu verið greiddar af þriðja aðila, annars vegar af Pressunni og hins vegar lögmannsstofu. Kröfuhafar hefði því ekki orðið fyrir tjóni af þeim sökum.

Þrotabú DV vísar hins vegar til þess að greiðslan hafi verið færð sem skuld DV ehf. við Pressuna í bókhaldi. Síðar í september hafi DV svo greitt Pressunni samtals rúmar 40 milljónir  með þeim skýringum að um hafi verið að ræða endurgreiðslu vegna Tollstjóra.

Skipti engu máli hvaða greiðslan kom

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að fallast á niðurstöðu héraðsdóms að Pressan hafi lánað DV rúmar 40 milljónir króna til greiðslu á opinberum gjöldum og að DV hafi endurgreitt stærstan hluta þess láns.

Í dómnum segir að það geti engu máli skipt, við ákvörðun um riftun greiðslunnar, að greiðslan hafi upphaflega borist frá reikningi Pressunnar. Við endurgreiðslu DV sex dögum síðar hafi handbært fé rýrnað með tilheyrandi áhrifum á greiðslugetu þess og jafnræði kröfuhafa. Það séu því uppfyllt skilyrði um að greiðslunni verði rift.

Hæstiréttur staðfesti jafnframt þá niðurstöðu að íslenska ríkinu verði gert að endurgreiða þrotabúi DV „fé sem svarar til þess sem greiða þrotamannsins hefur orðið honum að notum, þó ekki hærri en fjárhæð sem nemur tjóni þrotabúsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert