„Ærið verk að vinna“

Bryndís Elfa.
Bryndís Elfa. Ljósmynd/Aðsend

Enn virðist ærið verk að vinna þegar kemur að kynbundinni og kynferðislegri áreitni í samfélaginu. Þetta skrifar Bryndís Elfa Valdemarsdóttir, sérfræðingur á Jafnréttisstofu, í pistli í tilefni af vitundarvakningunni Meinlaust? sem er farin af stað.

Í vitundarvakningunni eru frásagnir úr íslensku samfélagi endursagðar í formi myndasagna. Fólk er hvatt til að taka þátt í umræðunni og deila eigin reynslu undir myllumerkinu #meinlaust eða með merkingunni @meinlaust.

Jafnréttisstofa hefur auk þess útbúið fræðslu fyrir vinnustaði sem nefndist KÁ vitinn. Markmið hennar er að starfsfólk og stjórnendur þekki birtingarmyndir og afleiðingar kynferðislegrar áreitni og fái verkfæri til að vinna gegn slíkri hegðun, að því er segir í pistlinum.

„Fimm árum eftir upphaf #metoo byltingarinnar heyrum við enn nánast daglega sögur um kynbundna og kynferðislega áreitni í daglegu lífi, námi eða starfi,“ skrifar Bryndís Elfa og bætir síðar við: „Opnum augun fyrir vandamálinu í stað þess að horfa á eftir því í hyldjúpa gjá sem hefur gríðarlegar afleiðingar fyrir einstaklinga, vinnustaði og samfélagið allt. Þekkjum birtingarmyndirnar og verum meðvituð gagnvart einu útbreiddasta vandamáli heimsins. Kynbundin og kynferðisleg áreitni er aldrei meinlaus.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert