Mönnunum sleppt úr varðhaldi – ekki lengur talið morð

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér yfirlýsingu rétt í þessu.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér yfirlýsingu rétt í þessu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur sleppt tveimur mönnum úr haldi sem handteknir voru í tengslum við rannsókn á andláti konu í Laugardal um helgina. 

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu rétt í þessu.

„Niðurstaða réttarmeinafræðings er sú að áverkar, sem voru á hinni látnu, hafi ekki leitt til andláts hennar og sé því ekki lengur grunur um að andlátið hafi borið að með refsiverðum hætti,“ segir í yfirlýsingunni. 

„Við skoðun lögreglu og réttarmeinafræðings á vettvangi í upphafi málsins, komu fram margir óljósir þættir sem þörfnuðust frekari skoðunar. Af þeim sökum voru tveir menn handteknir sem höfðu tengsl við hina látnu. Þeir voru síðar úrskurðaðir í gæsluvarðhald til fimmtudagsins 13. október en hafa nú verið látnir lausir,“ segir enn frekar í tilkynningunni.

Þá kemur fram að rannsókn lögreglu sé enn í gangi og að ekki verði unnt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu um hana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert