Grunur um morð og tveir í haldi

Um er að ræða póstnúmer 105 í Reykjavík.
Um er að ræða póstnúmer 105 í Reykjavík. mbl.is/Júlíus

Tveir menn eru í gæsluvarðhaldi vegna gruns um hlutdeild í manndrápi í Reykjavík.

Lögreglu barst tilkynning árdegis í gær um andlát sem talið er hafa borið að með saknæmum hætti, í póstnúmeri 105.

Úrskurðaðir í varðhald til fimmtudags

Þetta staðfestir Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, í samtali við mbl.is í kvöld.

Báðir mennirnir hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald til fimmtudags. 

Margeir kveðst ekki geta tjáð sig frekar um málið að svo stöddu þar sem rannsókn þess sé á viðkvæmu stigi.

Uppfært:

Samkvæmt tilkynningu lögreglu sem barst fjölmiðlum laust eftir klukkan tíu í kvöld fannst kona á sextugsaldri látin í bifreið við hús í Laugardal í gærmorgun. Tilkynning um málið barst lögreglu um hálfellefuleytið.

Lögregla hélt þegar á vettvang en konan var látin þegar að var komið.

Mennirnir tveir sem voru handteknir og úrskurðaðir í gæsluvarðhald eru á fimmtugsaldri. 

Rannsókn málsins er að sögn lögreglu á frumstigi, en hún beinist m.a. að því hvort mennirnir hafi átt þátt í andláti konunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert