„Þetta er virkt svæði og það mun gjósa aftur“

Herðubreið myndaðist undir jökli fyrir um tíu þúsund árum síðan.
Herðubreið myndaðist undir jökli fyrir um tíu þúsund árum síðan. mbl.is/Þorgeir Baldursson

„Ég get alveg fullyrt að það verður gos á þessu svæði, en hvenær það gerist er erfiðara að segja til um,“ segir Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur um möguleikann á eldgosi í Herðubreið.

„Herðubreið er hluti af Öskjukerfinu og Askjan er að sýna ákveðin teikn um að hún sé að undirbúa sig fyrir einhverja virkni, þannig að það kæmi manni ekkert á óvart ef hún færi af stað.“

Jarðskjálfti upp á 4,1 varð í gærkvöldi um 2,5 km frá toppi Herðubreiðar og er hann sá stærsti frá upphafi mælinga árið 1991.

Rannsóknir sýni annað

Herðubreið myndaðist undir jökli fyrir um tíu þúsund árum og er talað um fjallið sem einnar kynslóðar eldfjall.

„Með því er átt við að þarna gjósi bara einu sinni, í því gosi sem myndaði Herðubreið á sínum tíma, þannig að það gýs ekki á nákvæmlega sama stað aftur.

En það má alveg benda á að það eru til rannsóknir á Herðubreið og Herðubreiðartöglum sem benda til þess að þessi fjöll séu allavega úr tveimur gosum, ef ekki fleirum,“ greinir Þorvaldur frá.

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands.
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Getum verið viss um annað gos

„Það er ekki alltaf þannig með sprungugos að það gjósi bara einu sinni,“ heldur hann áfram og bendir á gosið sem myndaði Holuhraun árið 1787.

„Þar gaus aftur árið 1867 og svo aftur 2014 til 15 og alltaf sama gossprungan, þannig að sum eru greinilega að gjósa oftar en einu sinni.“

Þorvaldur segir að annars vegar geti gos orðið í þeirri gosrás sem myndaði Herðubreið og hins vegar geti það komið upp um nýja sprungu, þá mögulega í gegnum fjöllin.

„Hvort tveggja getur alveg gerst og kannski að seinna tilfellið sé líklegra, en við getum alveg verið viss um að það á eftir að gjósa aftur á þessu svæði. Þetta er virkt svæði og það mun gjósa aftur.“

Komin inn í virkt tímabil

Þorvaldur segir það greinilegt að töluverð skjálftavirkni hafi verið á landinu undanfarið. Bendir hann til dæmis á virknina á Reykjaneshrygg, Reykjanesskaga og í Heklu.

„Síðan var skjálftavirkni í Mýrdalsjökli, eitthvað er í gangi undir Vatnajökli og svo fyrir norðan land við Grímsey,“ segir hann.

„Ég held að við séum komin inn í tímabil sem er frekar virkt og þetta virðist gerast í 100 til 140 ára sveiflum. Þá er mikið í gangi á landinu og það eru tíð gos og órói og skjálftavirkni meiri heldur en á þeim tímabilum sem taka við þar á eftir. Þau eru svipað löng en virðast vera aðeins rólegri, þannig að það er einhver smá sveifla í eldvirkninni hjá okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert