Þröskuldurinn eins hár og hugsast getur

Frá aðgerðum lögreglu í síðustu viku þar sem fjölskyldu var …
Frá aðgerðum lögreglu í síðustu viku þar sem fjölskyldu var vísað úr landi og hún send til Grikklands. Ljósmynd/Aðsend

Orðræðan sem gefur til kynna að hingað stefni flóðbylgja flóttafólks sem muni drekkja Íslendingum og íslenskri menningu er margra ára gömul og er markvisst notuð til þess að takmarka eða útiloka aðgengi fólks að landinu sem ekki er hvítt á hörund, að sögn Írisar Ellenberger, dósents á menntavísindasviði Háskóla Íslands.

Hún segir sögu Íslands í flóttamannamálum markast af kynþáttafordómum. Hérlendis hafi ávallt ríkt gríðarleg tregða þegar kemur að því að hleypa fólki inn til landsins, ef það er ekki gert í atvinnuskyni. 

Þetta kom fram í máli hennar á hádegisfundi í Háskóla Íslands í dag þar sem rætt var um móttöku flóttafólks á Íslandi. Er Ísland að drukkna í flóttafólki? var yfirskrift fundarins.

Hörðustu aðgerðir í hundrað ár

Mikil umræða fór af stað um móttöku flóttafólks og hælisleitenda hér á landi eftir að 15 hælisleitendur voru sendir til Grikklands í aðgerðum lögreglu í síðustu viku. Íris segir aðgerðirnar þær hörðustu í hundrað ár. 

„Að vissu leyti þá var þetta atvik fullkomlega í samræmi við þá útlendingastefnu sem hefur verið rekin á Íslandi síðastliðin örugglega hundrað ár. Það var fyrst árið 1920 sem lög um útlendinga voru sett á Íslandi og þar var svolítið sleginn tóninn með þetta, að innflytjendur og erlent fólk sé ekki velkomið til Íslands nema bara í undantekningatilfellum, sérstaklega og þá bara helst þegar við getum nýtt utanaðkomandi fólk sem vinnuafl,“ segir Íris.

Hundrað milljónir á flótta

Fjöldi fólks á flótta á alþjóðavísu hefur tvöfaldast á síðasta áratug. Nú er talið að um hundrað milljónir hafi neyðst til að flýja heimili sín. Langflestir eru á flótta í eigin heimaríki en þeir sem hafa leitað skjóls utan landsteinanna eru í nágrannaríkjum. Af þessum hundrað milljónum sem eru á flótta eru um 30 milljónir með formlega stöðu flóttamanns.

Það sem af eru ári hafa 3.500 komið til Íslands sem flóttamenn. Stærstur hluti þeirra eru flóttamenn frá Úkraínu. Sérfræðingarnir sem komu saman á fundinum í hádeginu telja þó ekki rétt að halda því fram að Ísland sé að drukkna í flóttafólki. Þvert á móti ríki hér strangar reglur um móttöku þeirra.

Ómannúðleg meðferð eða pyndingar

Kári Hólmar Ragnarsson, lektor við lagadeild Háskóla Íslands, hélt upphafserindið á fundinum. Að mati Kára er íslenska kerfið ekki opið þegar kemur að móttöku flóttafólks og er aðeins ein þjóð í Evrópu sem hefur endursent fleiri flóttamenn til Grikklands en Ísland á þessu ári.

„Þetta eru nú þegar mjög þröngar reglur. Þetta eru ekki beint lágir þröskuldar sem fólk þarf að yfirstíga til að fá hér alþjóðlega vernd. Þegar við erum að tala um að senda fólk ekki aftur til annarra ríkja þar sem þeirra bíður eitthvað þá er þröskuldurinn ómannúðleg meðferð eða pyndingar. Þetta er eins hár þröskuldur og hugsast getur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert