66°Norður og JÖRFÍ framlengja samstarf um verndun íslenskra jökla

Frá rannsóknarferð JÖRFÍ.
Frá rannsóknarferð JÖRFÍ.

Jöklarannsóknafélag Íslands (JÖRFÍ) og 66°Norður hafa gengið formlega frá samkomulagi um áframhaldandi samstarf að standa vörð um íslensku jöklana með því að mæla afkomu smájökla á Suðurlandi og stuðla að vitundarvakningu um áhrif hlýnunar andrúmslofts vegna loftslagsbreytinga.

Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu en samstarfið snýr einnig að því að taka ljósmyndir af jöklum til samanburðar á sögulegum myndum sem eru í varðveislu JÖRFÍ en þær veita innsýn á hopi jökla.

Á morgun, föstudaginn 25. nóvember, mun 25% af allri sölu í vefverslun 66°Norður renna til Jöklarannsóknafélags Íslands á svokölluðum föstudegi fyrir jöklana. 66°Norður hefur frá árinu 2020 afhent íslenskum umhverfissamtökum ríflega níu milljónir króna vegna afraksturs sölu á þessum degi að því sem fram kemur í tilkynningunni.

Jöklarannsóknafélagið hefur sinnt mælingum á breytingum á stöðu jökulsporða undanfarin 90 ár en þær mælingar eru mikilvægt framlag til vöktunar umhverfisbreytinga sem nú eiga sér stað víða um heim vegna hlýnandi loftslags. Á vor- og haustmánuðum nýtti JÖRFÍ styrk frá 66° Norður, að upphæð 1,6 milljón króna til að mæla afkomu Tindfjallajökuls og Eyjafjallajökuls og að safna myndefni til að nota í fræðslu og kynningu um jökla - og loftslagsbreytingar. 

mbl.is