Íbúðaverð sem hlutfall af launum ekki hærra í 15 ár

Eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði er enn að dragast saman.
Eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði er enn að dragast saman. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íbúðaverð sem hlutfall af launum er nú orðið hærra en þegar það var hæst um haustið 2007. Þetta á við bæði á höfuðborgarsvæðinu, nágrannasveitarfélögum þess og annars staðar á landsbyggðinni. Þetta kem­ur fram í nýbirt­um töl­um Hús­næðis- og mann­virkja­stofn­un­ar (HMS).

„Helstu vísar um stöðu mála á fasteignamarkaði gefa til kynna að eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði sé enn að dragast saman. Kólnun á fasteignamarkaði þýðir þó ekki að hann sé frosinn eins og á árunum eftir hrun heldur virðast aðstæður líkari því sem var 2019 og 2020,“ segir í skýrslu hagdeildar HMS.

Hlutfall íbúða sem selst yfir ásettu verði hefur farið ört …
Hlutfall íbúða sem selst yfir ásettu verði hefur farið ört lækkandi frá því í júní síðastliðnum. Ljósmynd/HMS

Hlutfall íbúða sem selst yfir ásettu verði hefur farið ört lækkandi frá því í júní síðastliðnum. Hlutfallið mældist 24,6% á höfuðborgarsvæðinu í október samanborið við 32,9% í september og 46,6% í júlí og hefur ekki mælst svo lágt síðan í október 2020.

Hver auglýsing fær nú færri smelli

Þá kemur fram, að hver fasteignaauglýsing fái að jafnaði umtalsvert færri smelli nú en áður sem gefi til kynna að færri séu að leita sér að íbúð.

„Í byrjun febrúar, þegar framboð íbúða var í lágmarki, fékk hver auglýsing á höfuðborgarsvæðinu að meðaltali 149 smelli á dag en í fyrri hluta nóvember var sú tala komin niður í 42.“

Aukinn þrýstingur á leiguverð

Fram kemur að hækkanir leiguverðs séu enn nokkuð hóflegar miðað við vísitölu leiguverðs fyrir októbermánuð en að aukinn þrýstingur geti komið með frekari umsvifum í ferðaþjónustu. Á síðustu 12 mánuðum hefur leiga hækkað um 8,4% sem er minna en hækkun almenns verðlags.

Þá er hluti ráðstöfunartekna leigjenda sem fer að jafnaði í leigu um það bil 28% sem er fjórða hæsta hlutfallið í löndum OECD en þó sambærilegt hinum Norðurlöndunum.

Leiga hefur hækkað minna en hækkun almenns verðlags.
Leiga hefur hækkað minna en hækkun almenns verðlags. Ljósmynd/HMS
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert