Telja HÍ seilast í vasa stúdenta

Stúdentaráð kallar eftir því að löggjafinn bregðist við efasemdum um …
Stúdentaráð kallar eftir því að löggjafinn bregðist við efasemdum um skrásetningagjaldið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stúdentaráð Háskóla Íslands telur að 75.000 króna skrásetningargjald sem nemendur greiða sé í reynd falin skólagjöld og efast um lögmæti þeirra. 

„Þessi gjöld tíðkast ekki hjá opinberum háskólum á Norður­löndunum, hvað þá að fjárhæð 75.000 króna og enn síður ef þau eiga að vera hærri en það,” segir Rebekka Karlsdóttir, forseti Stúdentaráðs.

Rebekka Karlsdóttir, forseti Stúdentaráðs.
Rebekka Karlsdóttir, forseti Stúdentaráðs. mbl.is/Kristinn Magnússon

Telur hún úrskurð áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema, sem féll í október, vekja upp áleitnar spurningar um skrásetningargjaldið. Þar var komist að því að skólinn hafi ekki farið rétt að við útreikninga á árlegu skrásetningargjaldi nemenda en ekki tekin afstaða til lögmætis gjaldsins.

„Hér á landi eru í raun skólagjöld í opinbera háskóla“

Stúdentaráð blés til málfundar um skrásetningargjaldið í dag, hvar Jóna Þórey Pétursdóttir, lögfræðingur og fyrrverandi forseti Stúdentaráðs, Erla Guðrún Ingimundardóttir, aðallögfræðingur á rektorsskrifstofu háskólans og Friðrik Jónsson, formaður Bandalags háskólamanna sátu fyrir svörum.

„Við settum fram spurninguna í nafni fundarins hvort að að skrásetningargjöldin væru í raun skólagjöld í felum og þar með brot á lögum – og ég myndi segja að niðurstaða fundarins sé sú að hér á landi eru í raun skólagjöld í opinbera háskóla,“ segir Rebekka. Stúdentar hafa vakið athygli á þessu síðastliðin tvö ár.

Jóna Þórey Pétursdóttir, lögfræðingur og fyrrverandi forseti Stúdentaráðs, Erla Guðrún …
Jóna Þórey Pétursdóttir, lögfræðingur og fyrrverandi forseti Stúdentaráðs, Erla Guðrún Ingimarsdóttir, aðallögfræðingur á rektorsskrifstofu háskólans og Friðrik Jónsson, formaður Bandalags háskólamanna sátu fyrir svörum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þjónustan má ekki teljast til kennslu

Lögin setja tvö skilyrði fyrir innheimtu gjaldsins; annars vegar að þau skuli ekki skila háskóla hærri tekjum en sem nemur samanlögðum útgjöldum vegna nemendaskráningar og ákveðinnar þjónustu en hins vegar að þjónustan sem rukkað er fyrir megi ekki teljast til kostnaðar við kennslu og rannsóknarstarfsemi.

Prófahald, skipulag kennslu og rekstur kennslusviðs eru á meðal kostnaðarliða að baki gjaldinu en Stúdentaráð telur þá liði órjúfanlega þætti kennslu.

Skora á háskólann og stjórnvöld að færa rök fyrir skrásetningargjaldi

„Við tókum þessa ákvörðun árið 2020, að draga skrásetningargjaldið í efa og skora á stjórnvöld og háskólann að færa rök fyrir því, í hvað skrásetningargjaldið er að fara,“ segir Jóna, en lögin séu skýr um að skrásetningargjald megi ekki fara í kennslu.

Erla Guðrún Ingimundardóttir, aðallögfræðingur HÍ, telur skýra lagastoð fyrir þeim kostnaðarliðum sem liggja að baki skrásetningargjaldi og að gjaldið sé lögmætt. Gjaldið fari meðal annars í rekstur kennslusviðs, enda sé það eitt af stoðsviðum í stjórnsýslu háskólans og hlutverk þess að veita nemendum og starfsfólki ýmsa þjónustu í tengslum við námið.

Friðrik Jónsson, formaður BHM, telur vanfjármögnun háskólakerfisins vera stærsta vandann. „Það þarf að skora á löggjafann. [...] Stóri vandinn er fjármögnun á háskólakerfinu. Það er það sem þarf að pota í pólitíkina út af og það er raunverulega debattið. Þar liggja hagsmunir okkar þriggja saman,“ sagði hann. 

Háskólinn sé í eilífu samtali við stjórnvöld

Þá vakti Guðmundur Ragnar Jónsson, framkvæmdastjóri sameiginlegrar stjórnsýslu HÍ, athygli á því á fundinum að vanfjármögnun háskólans væri áhyggjuefni.

„Við höfum reglulega verið að nálgast stjórnvöld og benda þeim á að háskólar á Íslandi eru reknir fyrir miklu minni fjármuni heldur en háskólar á Norðurlöndunum.“ Það hafi sínar afleiðingar. 

„En skrásetningargjaldið er eiginlega formúla sem hefur verið notuð til þess að áætla hvað þetta skrásetningargjald á að vera. Þó vantar náttúrulega aðra jafnstóra breytu í þetta, sem er fjöldi nemenda. Hann er breytilegur á milli ára,“ sagði Guðmundur. Gjaldið sé samkvæmt fjölda nemenda og því sveiflist það á milli ára.

Búin að óska eftir fundi með ráðherra 

Stúdentaráð hefur kallað eftir því að löggjafinn bregðist við og að tekin sé pólitísk afstaða til þess að skólagjöld séu lögð á í opinberum háskólum. 

„Þá erum við líka búin að óska eftir fundi með ráðherra til þess að ræða þessi mál nánar – lögmæti skrásetningargjaldsins sem og fjármögnun háskólastigsins í heild sinni, en það er ljóst að þar vantar mikið upp á til þess að standast samanburð við hin Norðurlöndin.

Þá fundar Rebekka reglulega með rektor og hyggst hún taka upp niðurstöður fundarins við hann fljótlega.

„Við þurfum að vera samstíga í þessu og muna að það er sameiginlegt hagsmunamál okkar að opinber háskólamenntun sé fjármögnuð sem skyldi og að sú fjármögnun á ekki að koma úr vösum stúdenta.“

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert