Aukin fjárframlög fagnaðarefni

Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn alþjóðasviðs ríkislögreglustjóra.
Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn alþjóðasviðs ríkislögreglustjóra. mbl.is//Hari

Í breytingartillögum við fjárlagafrumvarp er gert ráð fyrir að auka framlög til lögreglunnar um 500 milljónir kr. fyrir aðgerðir gegn skipulagðri brotastarfsemi. Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn alþjóðasviðs ríkislögreglustjóra, segir aukin framlög fagnaðarefni enda um að ræða málefni sem lögreglan hafi talsverðar áhyggjur af.

„Eins og hefur komið fram í okkar máli og í skýrslum frá greiningardeild þá er þetta einn af þeim þáttum sem við höfum haft talsverðar áhyggjur af,“ segir hann í samtali við mbl.is.  

Að sögn hans er alvarleg þróun í skipulagðri brotastarfsemi á Íslandi og henni fylgi mikil ógn.

„Því er þörf á að bregðast við því með öflugum hætti. Mér sýnist í fljótu bragði að þarna sé raunverulega verið að hlusta á þau rök sem við höfum fært fram um það. Þannig að næsta skref er frekari útfærsla á því sem við höfum þegar kynnt fyrir okkar fagráðuneyti.“

Fjölga lögreglumönnum

Spurður hvort verkáætlun liggi fyrir um hvernig fjármunum yrði ráðstafað í verkefnum tengdum skipulagðri brotastarfsemi svarar Karl því játandi.

„Við höfum kynnt ákveðna þætti fyrir okkar fagráðuneyti en við eigum eftir að setjast aðeins yfir þetta frekar,“ segir hann og bætir við að ekki liggi fyrir hvaða þættir það séu sem breytingarnar lúti að.

„En við höfum kynnt ákveðnar aðgerðir sem við teljum að sé nauðsynlegt að skoða.“

Hluti af því sé að fjölga lögreglumönnum.

Lýtur allt að styrkingu á alþjóðastarfi

Spurður út í samstarf ríkislögreglustjóra við aðila á alþjóðavísu segir hann að ríkislögreglustjóri sé í miklu sambandi við alþjóðastofnanir hvað varðar málefni sem tengjast skipulagðri brotastarfsemi, t.a.m Interpol, Europol og norrænt samstarf.

Hvort það yrði aukið samstarf með umræddum breytingartillögum segir hann:

„Það er auðvitað eitt af því. Það hefur alveg komið skýrt fram í okkar máli að skipulögð brotastarfsemi virðir engin landamæri og krefst samvinnu margra landa á svo margvíslegan hátt, þannig að það tengist því meðal annars,“ segir hann.

„Þetta lýtur allt að styrkingu á alþjóðastarfi.“

mbl.is