Fá viðbótargreiðslur í desember

Ráðherrabústaðurinn við Tjarnargötu.
Ráðherrabústaðurinn við Tjarnargötu. mbl.is/Freyr

Samþykkt var á fundi ríkisstjórnarinnar á föstudaginn var að greiða umsækjendum um alþjóðlega vernd viðbótargreiðslur í desember líkt og gert hefur verið undanfarin ár.

Greiðslurnar, sem nema 10 þúsund krónum fyrir hvern fullorðinn einstakling og 5 þúsund krónum fyrir börn, koma til viðbótar við fastar framfærslugreiðslur, að því er segir í tilkynningu.

Rúmlega 1.600 umsækjendur um alþjóðlega vernd eru í þjónustu Vinnumálastofnunar, þar af um 400 börn. Miðað við þann fjölda nemur heildarfjárhæð viðbótargreiðslnanna rúmum 14 milljónum króna en fjármunirnir koma af ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar.

Endanleg fjárhæð ræðst af fjölda umsækjenda í þjónustu á greiðsludegi.

mbl.is