Áfram í varðhaldi í stóra kókaínmálinu

Verjendur fjórmenninganna mæta í dómsal um miðjan mánuðinn, en sakborningarnir …
Verjendur fjórmenninganna mæta í dómsal um miðjan mánuðinn, en sakborningarnir sjálfir voru í fjarfundabúnaði frá fangelsinu á Hólmsheiði og Litla-Hrauni. mbl.is/Þorsteinn

Landsréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð yfir tveimur mönnum sem tengjast stóra kókaínmálinu þar sem tilraun var gerð til að smygla tæplega 100 kg af kókaíni til landsins í timbursendingu.

Málið var þingfest um miðjan þennan mánuð og er aðalmeðferð þess áformuð 5., 6. og 9. janúar.

Annar maðurinn er timburinnflytjandi en hinn er grunaður um að hafa skipulagt innflutninginn og komið öðrum sem málinu tengjast saman. Jafnfram er sá síðarnefndi, samkvæmt gæsluvarðhaldsúrskurðinum, talinn hafa afhent öðrum ákærðu í málinu peninga.

Hefur maðurinn lítið viljað tjá sig við lögreglu um málið, en hann hóf afplánun á fyrri dómi eftir að hafa verið í 12 daga í varðhaldi í ágúst. Þeirri afplánun lauk 30. október og hefur hann síðan verið í varðhaldi á ný. Með ákvörðun héraðsdóms og staðfestingu Landsréttar mun hann nú sæta varðhaldi til 21. desember í hið minnsta.

Í beiðni ákæruvaldsins er meðal annars vísað til þess að það þjóni almannahagsmunum að hann sæti áfram varðhaldi. Hann sé undir sterkum grun um skipulagða brotastarfsemi, peningaþvætti og tilraun til stórfellds fíkniefnainnflutnings. Gæti það að hann gangi laus valdið hneykslun í samfélaginu og sært réttarvitund almennings.

Í tilfelli timburinnflytjandans segir í úrskurðinum að lögreglan hafi fylgst með honum ásamt öðrum aðila fjarlægja timbrið úr gámnum, en annar meðákærði fjarlægði efnin síðar úr timbrinu. Hefur hann viðurkennt að hafa látið til leiðast að taka þátt í innflutningnum og að hann hafi átt að fá 30 milljónir fyrir sitt hlutverk. Hann dró hins vegar úr fyrri framburði sínum um upphæðina í síðari skýrslutöku.

Kókaín sem hollenska lögreglan gerði upptæk í timbursendingu, samtals 99,25 …
Kókaín sem hollenska lögreglan gerði upptæk í timbursendingu, samtals 99,25 kg. Ljósmynd/Hollenska lögreglan

Svipað er upp á teningnum varðandi ástæður að áframhaldandi varðhald er samþykkt. Grunur sé um skipulagða brotastarfsemi og tilraun til stórfellds innflutnings og peningaþvætti. Þá gæti það að hann gangi laus valdið hneykslun í samfélaginu. Nær varðhald hans einnig til 21. desember.

Tveir aðrir voru ákærðir í málinu og voru þeir í varðhaldi við þingfestingu málsins 16. nóvember. Mbl.is hefur fengið staðfest að í tilfelli annars mannanna hafi úrskurður héraðsdóms ekki verið kærður og að þar standi varðhald einnig til 21. desember. Ekki hefur fengist staðfest með stöðu fjórða mannsins, en líklegt verður að teljast að svipaða sögu sé að segja þar og í tilfelli þess þriðja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert