Óþekkt og alvarleg veiki komin upp í hrossum

Sex hross hafa þegar drepist. Mynd úr safni.
Sex hross hafa þegar drepist. Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Matvælastofnun og tilraunastöð HÍ að Keldum rannsaka nú óþekktan sjúkdóm sem kom upp í hópi hrossa dagana 23.-25. nóvember.

Í tilkynningu frá stofnuninni segir að um sé að ræða mjög alvarlegan sjúkdóm sem einkennist af háum hita.

Auk þess hafi hluti hrossanna fengið mikinn bjúg á framfætur, brjóst og jafnvel haus.

Ný tilfelli ekki bæst við

 „Alls hafa 13 hross veikst af 30 hrossa hópi. Þar af hafa 6 hross drepist en önnur eru mögulega á batavegi.“

Veikin kom samtímis upp í hópi útigangshrossa á Suðurlandi og hrossum frá sama eiganda sem tekin voru í hús á höfuðborgarsvæðinu þann 21. nóvember. Þar á meðal er eitt hross sem kom úr öðru umhverfi og annað sem hafði verið í húsinu í tvo mánuði.

Tekið er fram að ekki hafi bæst við ný tilfelli frá 25. nóvember og að ekkert bendi til þess að um bráðsmitandi sjúkdóm sé að ræða. Til öryggis hafi verið gerð krafa um ítrustu smitvarnir, bæði í kringum hesthúsið og útigangshrossin.

Niðurstöður krufninga í vinnslu

„Takmarkaðar vísbendingar hafa komið fram um orsök sjúkdómsins enn sem komið er, en rannsóknin er enn í fullum gangi. Sjúkdómurinn er rannsakaður sem afmörkuð hópsýking eða eitrun af einhverju tagi.

Bakteríuræktun hefur engu skilað enn sem komið er. Niðurstöður krufninga eru enn í vinnslu. Sýni hafa verið send erlendis til veirurannsókna en hraðpróf sem framkvæmd eru á Keldum hafa verið neikvæð. Umhverfissýni eru í rannsókn hjá Matís,“ segir í tilkynningunni.

Hestamenn eru hvattir til að vera vakandi fyrir einkennum í hrossum og hafa samband við starfandi dýralækna ef þeir telja ástæðu til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert