Erlendur ferðamaður datt af rafskútu

Tilkynnt var um slys í hverfi 105 í Reykjavík upp úr miðnætti eftir að erlendur ferðamaður datt af rafskútu og slasaðist á hné.

Hann var fluttur með sjúkrabíl á bráðadeild, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Maður í annarlegu ástandi var handtekinn í hverfi 108 í Reykjavík um hálfáttaleytið í gærkvöldi eftir ítrekuð afskipti lögreglunnar. Hann fór ekki að fyrirmælum og er grunaður um brot á lögreglusamþykkt. Maðurinn var vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu.

Þrír menn voru handteknir í Reykjavík í gærkvöldi grunaðir um vörslu/sölu fíkniefna. Þeir voru vistaðir í fangageymslu lögreglu.

Fjórar bifreiðir voru stöðvaðar í gærkvöldi og í nótt á höfuðborgarsvæðinu þar sem ökumennirnir eru grunaðir um ölvun við akstur.

mbl.is