84 börn voru ættleidd frá Sri Lanka

Dómsmálaráðuneytið fór í athugun á málinu eftir að greint var …
Dómsmálaráðuneytið fór í athugun á málinu eftir að greint var frá því að notast hafi verið við falsaða pappírar við ættleiðingar frá Sri Lanka. mbl.is/Hjörtur

Samtals voru 84 börn ættleidd frá Sri Lanka frá því að fyrstu börnin voru ættleidd þaðan til Íslands í lok september 1984 og þangað til dómsmálaráðuneytið stöðvaði ættleiðingar þaðan árið 1986. Ættleiðingarnar fóru fram með milligöngu Hollendings að nafni Dammas Hordijk og í gegnum lögfræðing í Sri Lanka.

Þetta kemur fram við athugun ráðuneytisins á gögnum um ættleiðingar frá Sri Lanka, en nýleg umfjöllun í þætti Stöðvar 2, „Leitin að upprunanum“, var tilefni athugunarinnar. Þar var greint frá því að falsaðir pappírar hefðu verið notaðir við ættleiðingar.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu kemur fram að á þessum tíma hafi ekki verið sérstaklega kveðið á um það í íslenskum lögum hvernig skyldi standa að ættleiðingum barna erlendis frá. „Þá ber einnig að geta þess að umræddar ættleiðingar frá Sri Lanka til Íslands áttu sér stað áður en Ísland gerðist aðili að Haag samningnum frá 29. maí 1993 um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingar milli landa. Þá var félagið Íslensk ættleiðing ekki á þessum tíma löggilt til þess að hafa milligöngu um ættleiðingar á börnum frá erlendum ríkjum,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

Fram kemur að pör sem vildu ættleiða á þessum tíma hafi skráð sig almennt á biðlista hjá Íslenskri ættleiðingu og það hafi svo verið unnið með Hordijk, en hann var um tíma forstöðumaður hollensks ættleiðingarfélags að nafni FLASH, en hann hætti þar störfum árið 1984 og aðstoðaði eftir það á eigin vegum m.a. íslensk pör við að ættleiða  börn frá Sri Lanka.

Þá segir jafnframt að tengiliður og samstarfsmaður Hordijk hafi verið lögfræðingur að nafni R. Thavanesan sem starfaði í Sri Lanka. Samkvæmt athugun ráðuneytisins á gögnum frá umræddum tíma sá lögfræðingurinn í Sri Lanka m.a. um lagalegu hliðina gagnvart dómstólum í Sri Lanka fyrir hönd væntanlegra kjörforeldra frá Íslandi þegar þau sóttu um leyfi í Sri Lanka til þess að ættleiða barn. Þá segir einnig að allar ættleiðingarnar á umræddum tíma hafi farið fram fyrir tilstuðlan stjórnvalds á Sri Lanka, þ.e. Probation Office, og svo dómstóla í Sri Lanka, þ.e. Family Court.

Stöðvað vegna ættleiðingarmáls 1986

Dómsmálaráðuneytið stöðvaði ættleiðingar frá Sri Lanka árið 1986, en það var vegna ættleiðingarmáls sem var þá til meðferðar og laut að þeim gögnum sem voru fyrirliggjandi um ættleiðingu tiltekins barns og svara sem ráðuneytið fékk á þeim tíma. Tekið er fram að ekki sé hægt að tjá sig nánar um það vegna persónuverndar barnsins og kjörforeldra.

Þetta urðu lok ættleiðinga frá Sri Lanka til Íslands, en ráðuneytið heimilaði ekki að hefja á ný ættleiðingar þaðan þrátt fyrir nýjan tengilið úti. „Þau gögn sem liggja fyrir frá umræddum tíma benda ekki til annars en að stöðvun ættleiðinga frá Sri Lanka hafi að meginstefnu til verið byggð á þessu tiltekna máli og í kjölfarið þeim vafa sem ráðuneytið taldi vera á áreiðanleika þess lögfræðings sem starfaði fyrir hönd væntanlegra kjörforeldra í Sri Lanka. Ráðuneytið sá sig knúið til þess að athuga nánar þann aðila sem starfaði sem tengiliður Dammas Hordijk í Sri Lanka. Í kjölfar þess að ráðuneytið stöðvaði ættleiðingar frá Sri Lanka reyndi Íslensk ættleiðing, í samstarfi við Dammas Hordijk, að komast í samband við nýjan tengilið í Sri Lanka þannig að ættleiðingar þaðan gætu haldið áfram. Það hafi hins vegar ekki gengið eftir vegna afstöðu dómsmálaráðuneytisins.“

Leitað svar svara bæði frá Hollandi og Sri Lanka

Ráðuneytið segist hafa fengið svör bæði frá Hordijk og lögfræðingnum í Sri Lanka eftir að hafa óskað frekari skýringar á málinu. Hafi Hordijk meðal annars svarað því að ekki þyrfti sérstakt leyfi til að hafa milligöngu um ættleiðingar í Sri Lanka á þessum tíma, nóg væri að vera lögfræðingur. Það væri hlutverk dómstóla að ganga úr skugga um að réttir kynforeldrar kæmu fram fyrir dómstólum og að þeir væru yfirheyrðir við meðferð málsins.

Fékk ráðuneytið þau svör frá yfirvöldum í Sri Lanka að engar athugasemdir væru gerðar við störf lögfræðingsins þar og að hún hefði staðið sig vel í sínum störfum við að aðstoða fátækar mæður í Sri Lanka og hafa milligöngu um ættleiðingar á börnum frá Sri Lanka.

Dómsmálaráðuneytið óskaði eftir milligöngu utanríkisráðuneytisins við að senda fyrirspurn til hollenskra stjórnvalda um Hollendinginn Dammas Hordijk, m.a. hvort hann hefði leyfi hollenskra stjórnvalda til þess að hafa milligöngu um ættleiðingar. Ráðuneytið fékk þau svör að hollenskum stjórnvöldum væri kunnugt um að ættleiðingarstofnunin FLASH sem Dammas Hordijk veitti forstöðu á tilteknum tíma hafi um tíma ekki staðið sig fyllilega sem skyldi en breyting hefði orðið þar á til batnaðar og væri komið á gott og náið samstarf milli FLASH og hollenskra stjórnvalda.

Eftir að málið kom upp árið 1986 sendi dómsmálaráðuneytið bréf til stjórnvalda í Sri Lanka eftir ábendingar Íslenskrar ættleiðingar um tvo lögfræðinga sem væru tilbúnir að vera nýir tengiliðir þar í landi. Segir ráðuneytið að ekki verði séð að yfirvöld á Sri Lanka hafi svarað þessum fyrirspurnum.

Ítreka erindi frá 2017 um rannsókn í Sri Lanka

Árið 2017 sendi ráðuneytið erindi til yfirvalda í Sri Lanka og óskað var eftir upplýsingum um rannsókn þar í landi og beðið um að íslensk yfirvöld yrðu upplýst um framvindu málsins og um niðurstöður sem varða uppruna þeirra sem voru ættleiddir. Þær tilraunir hafa hins vegar ekki borið árangur hingað til og hefur ráðuneytið ítrekað erindi sitt nú í byrjun mánaðarins. Þar kemur m.a. fram að nokkrir uppkomnir ættleiddir frá Sri Lanka hefðu sett sig í samband við ráðuneytið vegna gruns af þeirra hálfu að skjöl sem hafi legið til grundvallar ættleiðingu þeirra í Sri Lanka hafi verið fölsuð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert