Fordæmalaus bótakrafa í máli Áslaugar

Áslaugu Thelmu Einarsdóttur var vikið úr starfi hjá Orku náttúrunnar, …
Áslaugu Thelmu Einarsdóttur var vikið úr starfi hjá Orku náttúrunnar, dótturfélagi Orkuveitu Reykjavíkur, fyrir fjórum árum síðan. Ljósmynd/Orka Náttúrunnar

Áslaug Thelma Einarsdóttir krefur Orku náttúrunnar, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, um 125 milljónir króna í skaða- og miskabætur í kjölfar ólögmætrar uppsagnar hennar hjá fyrirtækinu og ærumeiðinga hjá stjórnendum Orkuveitunnar í kjölfarið. Lögmaður Áslaugar segir málið fordæmalaust.

„Þetta mál er algjörlega fordæmalaust. Það hefur aldrei áður verið haldinn blaðamannafundur til að rakka einstakling niður,“ segir Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Áslaugar, í samtali við mbl.is.

„Þetta er ekki lagt upp sem hefðbundið mál vegna ólögmætrar uppsagnar heldur er ólögmæt uppsögn og eftirfarandi blaðamannafundur sem skaðaði starfsframa konu sem átti framtíðina fyrir sér.“

Landsréttur dæmdi Áslaugu í vil fyrr á þessu ári og var uppsögn hennar því dæmd ólögmæt. Bótaskylda Orkuveitunnar var viðurkennd. Lögmaður Orku náttúrunnar bauð Áslaugu 13,6 milljónir í bætur sem hún hafnaði. Nú krefst hún nærri því tífaldri þeirrar upphæðar í bætur.

Þess vegna er upphæðin svona há

Sigurður segir bótakröfuna vera svona háa vegna þess að það er líka beðið um dómkvaðningu matsmanna til þess að meta tjónið.

„Ég horfi á þetta mál sem skaðabótamál samkvæmt skaðabótalögum þar sem getur spilað inn í hversu lengi varstu algjörlega óvinnufær og hversu mikil áhrif hafði uppsögnin á þig þannig að þú getir fengið sambærilega vinnu til framtíðar. Þetta er byggt upp á grundvelli skaðabótaréttar.

Þess vegna er þetta allt svona hátt því maður veit aldrei hvað getur komið út úr mati frá dómkvöddum matsmönnum, það getur þess vegna komið mikið minna. Það kemur líka til frádráttar það sem hún hefur fengið í bætur annars staðar frá á tímanum,“ segir Sigurður.

Sigurður G. Guðjónsson í héraðsdómi.
Sigurður G. Guðjónsson í héraðsdómi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fór ekki eftir eigin reglum

„Það er algjörlega fáheyrt að millistjórnanda sé sagt upp á blaðamannafundi og það séu þrír æðstu stjórnendur sem eru mættir að segja það að allt þetta hafi verið stormur í vatnsglasi og svo kemur dómur Landsréttar sem segir: „Heyrðu þið brugðust og gerðuð ekki það sem þið áttuð að gera“,“ segir Sigurður.

Hann segir Orkuveituna vera fyrirtæki sem hefur einna flestar og mestar stefnur um mannauð og jafnrétti og sé margverðlaunað fyrir það.

„Það er ekki nóg að hafa reglunar ef menn fara ekki eftir þeim. Það er ekki nóg að vera verðlaunafyrirtæki eins og Orkuveitan og vera með allt niðrum sig annars staðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert