Töluðu um að verða „meðlimir í drápssveit“

Mennirnir voru látnir lausir á þriðjudag.
Mennirnir voru látnir lausir á þriðjudag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tveir menn sem eru ákærðir fyrir hryðjuverk ræddu saman um að fremja fjöldamorð, meðal annars með skotárásum og með því að keyra trukk í gegnum hinsegin gönguna.

Þá sagði annar þeirra að einn daginn yrðu þeir meðlimir í drápssveit RWDS (e. right wing death squad).

Samskipti þeirra stigmögnuðust eftir því sem nær dró að handtöku þeirra, þann 21. september. 

Þetta kemur fram í úrskurði héraðsdóms, sem nú hefur verið birtur. Honum var hins vegar snúið við í Landsrétti á þriðjudag og mennirnir látnir lausir.

Sett fram „undir áhrifum áfengis og í gríni“

Samskipti mannanna tveggja spanna nokkurra mánaða skeið og var í þeim að finna yfirlýsingar um voðaverk, tilraunir til þess að skaða undirstöðustofnanir ríkisins auk þess sem þeir könnuðu tímasetningu árshátíðar lögreglu líkt og fram hefur komið.

Annar mannanna neitaði í skýrslutöku lögreglu allri aðild að undirbúningi hryðjuverka og taldi ummæli sín um voðaverk marklaus, sett fram undir áhrifum áfengis og í gríni. Hann sagðist þá gera sér grein fyrir því að gögnin litu mjög illa út fyrir hann.

Nasistafáni og sprengiefni – játaði sölu skotvopna

Við leit á heimili hans lagði lögregla meðal annars hald á tvo brúsa sem innihéldu óþekktan vökva, kassa með 43 stykkjum af 9 millimetra skotum, þrívíddarprentara, gasskammbyssu, minnisbók sem virtist innihalda lista yfir forefni til sprengjugerðar, nasistafána, suðurríkjafána og gasgrímu.

Þá fundust efnisleifar af hvítu efni, kannabisefni, flakkara og nokkrar einnota myndvélar. 

Játaði hann við lögreglu að hafa framleitt skotvopn og tekið þátt í að breyta vopnum í hálfsjálfvirk vopn, auk þess að selja þau.

Hetjur og fyrirmyndir hafi framið fjöldadráp

Þann 22. júní sl. sendi kærði einn þeirra skilaboð á hinn sem hljóðuðu svo: „einn daginn verðum við í RWDS hvernig sem þér líkar það“ –„right wing death squad.“ Um þetta sagði héraðsdómur:

„Fyrir liggur að  hetjur  þeirra  og  fyrirmyndir  eru  þekktir  einstaklingar  og  hópar  sem  framið  hafa  fjöldadráp  og hryðjuverk. Þá liggur og fyrir að kærði aðhyllist ýmsar öfgakenndar skoðanir,“ sagði um annan mannanna.

Stuðst var við bráðabirgðaniðurstöðu geðlæknis í úrskurði héraðsdóms, sem taldi forsendur til þess að halda mönnunum í varðhaldi. Dómkvaddur matsmaður í Landsrétti var hins vegar á öðru máli og taldi ekki að mennirnir væru hættulegur sjálfum sér eða öðrum.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert