„Ákveðnar aðgerðir“ í gangi vegna tvímenninganna

Annar mannanna leiddur út úr Héraðsdómi Reykjavíkur þegar beiðni um …
Annar mannanna leiddur út úr Héraðsdómi Reykjavíkur þegar beiðni um varðhald var tekin þar fyrir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Embætti ríkislögreglustjóra er með ákveðnar aðgerðir í gangi eftir að tvímenningarnir, sem ákærðir hafa verið fyrir undirbúning hryðjuverka, voru látnir lausir í kjölfar úrskurðar Landsréttar í gær.

Þetta staðfestir Gunnar Hörður Garðarsson, samskiptastjóri ríkislögreglustjóra, í samtali við mbl.is. Hann segir þó ekki hægt að fara nánar út í hvað slíkar aðgerðir feli í sér í ljósi stöðu málsins.

Geðmat sem lá líka fyrir síðast

Í gær var greint frá því að mennirnir hefðu verið látnir lausir og byggði það meðal annars á geðmati sem lá fyrir frá dómskvöddum matsmanni um að sakborningarnir í málinu væru ekki hættulegir. Raunar lá það mat einnig fyrir við síðasta gæsluvarðhaldsúrskurð sem Landsréttur staðfesti, en nú virðist sem Landsrétti hafa snúist hugur.

Embætti héraðssaksóknara fer með rannsókn málsins, en Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari segir að lítið sé hægt að segja um úrskurð Landsréttar á þessu stigi. Segir hann að í ljósi fyrri úrskurða komi niðurstaðan á óvart.

Dómstólar verði að svara fyrir

Þegar málið kom upp á sínum tíma hélt lögreglan fréttamannafund og var því meðal annars haldið fram að hættuástandi hafi verið afstýrt og að ætla mætti að Alþingi eða lögregla hefðu verið skotmörk mannanna.

Spurður hvort hann telji hættu stafa af mönnunum nú þegar þeir eru lausir segir Ólafur að ekki sé rétt að ákæruvaldið tjái sig á þessum tímapunkti um það. Bendir hann á að Landsréttur meti það ekki þannig, en að málið sé nú fyrir dómstólum.

Hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var vísað á greiningardeild ríkislögreglustjóra varðandi að svara fyrir mögulega hættu af mönnunum eftir að þeir voru látnir lausir.

Gunnar Hörður segir að embættið geti á þessum tímapunkti lítið tjáð sig um málið, en staðfestir þó að lögreglan sé með „ákveðnar aðgerðir“ í gangi eftir að mennirnir voru látnir lausir. Spurður hvort embættið telji mennina enn hættulega segir hann það eitthvað sem dómstólar verði að svara fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert