Búast við að metið falli á morgun

Allt stefnir í að nýtt met í heitavatnsnotkun verði slegið …
Allt stefnir í að nýtt met í heitavatnsnotkun verði slegið á morgun þegar að Íslendingar fara í jólasturtuna og -baðið. mbl.is/Heiddi

Tímabundið þrýstingsfall gæti orðið í hitaveitukerfi Veitna á morgun en allt stefnir í að nýtt met verði slegið í heitavatnsnotkun á þeim tíma dags er flestir landsmenn skella sér í jólabaðið.

Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna, segir fyrirtækið ekki hafa áhyggjur, staðan á heita vatninu sé góð en hún hvetur þó fólk til að huga að því að dreifa álaginu á kerfið. Er það til að mynda hægt með því að fara í sturtu um morguninn eða á hádegi í stað þess að fara á milli klukkan 16 og 17.30 þegar mesta álagið er. 

„Við sjáum hámarksrennslistölur, dag eftir dag eftir dag, sem við höfum aldrei séð áður hjá Veitum. Það hafa aldrei verið jafnmörg hús tengd í jafn miklum kulda eins og núna. Þetta er búið að vera langvarandi kuldaskeið, það lengsta sem við höfum séð á þessari öld.

Svo auðvitað er þetta áskorun og það er fulllestað hjá okkur kerfið en við ráðum samt alveg við þetta. Forgangsverkefnið er húshitun og að fólk geti baðað sig fyrir jólin,“ segir Sólrún í samtali við mbl.is.

Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna.
Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna. Ljósmynd/Aðsend

Met slegið í síðustu viku

Síðasta met í heitavatnsnotkun í kerfi Veitna var slegið á fimmtudaginn í síðustu viku þegar rennslið fór upp í 18.400 rúmmetra á klukkustund en áætlað er að rennslið fari yfir 19.000 rúmmetra á klukkustund á morgun. 

„Við erum komin á þann stað að mjög margar hitaveitur landsins eru komnar að ákveðnum þolmörkum. Við vitum að það eru tækifæri til að fara betur með og nýta betur það sem við höfum þegar aflað,“ segir Sólrún.

Óþarfi að loka sundlaugum

Loka þurfti flestum sundlaugum á höfuðborgarsvæðinu fyrr í vikunni eftir að bilun kom upp í Hellisheiðarvirkjun sem olli því að engin framleiðsla var á heitu vatni.

Áður hefur komið fram að nái eftirspurnin eftir heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu ákveðnu marki gætu Veitur þurft að skerða vatn til stórnotenda, til að mynda sundlauga.

Að sögn Sólrúnar er þó ekki þörf á að loka laugunum á morgun til að mæta aukinni eftirspurn. 

„Það sem gæti gerst ef að álagið er mjög mikið er að það verður tímabundið þrýstingsfall sem þýðir að aðeins minna rennsli kemur en það er ekki þannig að við höfum áhyggjur af því að húsin verði ekki heit, eða að fólk geti ekki farið í sturtu eða bað. Við erum ekki að tala um neinar skerðingar eða neitt slíkt.“

Þá segir hún að búið sé að koma í veg fyrir að bilunin í Hellisheiðarvirkjun komi upp aftur. „Það er samt ekki hægt að lofa því að það komi ekki upp önnur bilun einhvers staðar. Við bara krossum putta að það gerist ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert