Þrír bílar lentu undir snjóflóði í Reynisfjalli

Þrír bílar lentu undir flóðinu.
Þrír bílar lentu undir flóðinu. Ljósmynd/Aðsend

Snjóflóð féll í Reynisfjalli í nótt fyrir ofan bæinn Garða í Reynishverfi. Engan sakaði en að minnsta kosti þrír bílar lentu undir flóðinu, allir mannlausir.

Ragnar Sigurður Indriðason, íbúi í Görðum, segir að heimilisfólkið hafi ekki orðið vart við flóðið fyrr en í morgun. „Þetta kom okkur svolítið að óvörum. Það byrjaði á norðaustan- austanátt og svo sneri til suðaustur. Við vorum ekkert óörugg um okkur að það væri mikil hætta á snjóflóð við þessar aðstæður. En það hefur bara náð að kyngja svo mikið þennan stutta tíma sem að það var norðaustanátt,“ segir Ragnar.

Snjóflóðið féll að bænum og er mjög erfitt að fara um að sögn Ragnars. 

Bílarnir stóðu á hlaðinu við útihúsin sem eru nú á kafi í snjó.

„Við höldum að einn bíllinn hafi farið í hlöðuna. Við sjáum bara í toppinn á honum og fremst á gluggana. Við vitum ekki hvernig ástandið á honum er. Það er svo mikill snjór það er mjög erfitt að fara hér um í kringum bæinn,“ segir Ragnar sem tekur þó fram að flóðið hafi ekki verið mjög stórt.

Þriðji bíllinn sem lenti undir flóðinu.
Þriðji bíllinn sem lenti undir flóðinu. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert