Líklega mesti snjór í áratugi

Frá snjómokstri í Reynishverfi. Mynd úr safni.
Frá snjómokstri í Reynishverfi. Mynd úr safni.

„Hér er mikið fannfergi, það hefur líklega ekki snjóað svona mikið í áratugi. Nú vinna allir hörðum höndum að því að koma samgöngum í lag hérna innan bæjar.“

Þetta segir Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri Mýrdalshrepps, í samtali við mbl.is. Snjómoksturinn gengur hægt fyrir sig vegna snjómagnsins.

Tjón sem hleypur á tugum milljóna

„Það hafa engin slys verið á fólki í þessu veðri sem er það sem mestu skiptir en þetta hefur talsverð áhrif, bæði á einstaklinga sem búa hérna og fyrirtæki.

Það er mikið um afbókanir á ferðum og gistingum. Fyrir marga rekstraraðila er þetta tjón sem hleypur á tugum milljóna,“ segir hann.

Einar vonar að yfirvöld skoði fyrirkomulagið á vegalokunum en hættuástand myndaðist á jóladag þegar fjöldi bíla keyrði óhindrað framhjá lokunarpóstum björgunarsveita.

Starfsmenn Vegagerðarinnar fóru fyrir bílalest eftir að vegurinn var opnaður …
Starfsmenn Vegagerðarinnar fóru fyrir bílalest eftir að vegurinn var opnaður á ný í gær við Vík. mbl.is/Jónas Erlendsson

Ferðamenn átti sig ekki á hættunni

„Eins þarf að skoða hvort það hreinlega hefði þurft að lýsa yfir almannavarnaástandi hérna um daginn.“

„Það virðist vera að ekki allir ferðamenn hafi áttað sig á hættunni sem var á ferð og jafnvel fólk sem ætlaði að fara gangandi út í þetta veður,“ segir Einar og bætir því við að hægt hefði verið að senda út sms til þess að vara fólk við veðrinu.

„Við erum enn að læra inn á þennan nýja veruleika, að vera með svona gríðarlega marga ferðamenn yfir allt árið og í öllum veðrum.“

Jólaandinn svífur yfir vötnum

Einar segir að þrátt fyrir vont veður síðustu daga hafi hreppsbúar haldið gleðileg jól.

„Það svífur jólaandi yfir vötnum hjá okkur, það er fallegt veður eins og er. Það eru margir krakkar sem njóta góðs af öllum þessu snjó, eru að búa til snjóhús og snjókarla.

Það er ákveðinn jólaandi yfir viðbrögðum björgunarsveitamanna sem fórnuðu tíma með fjölskyldunni og gáfu sér frekar tíma til þess að bjarga fólki sem var í neyð.“

Færðin hefur verið þung víðs vegar um land.
Færðin hefur verið þung víðs vegar um land. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert