Gæti þurft að ganga síðasta spölinn í áramótapartý

Eiður Fannar Erlendsson, yfirmaður vetrarþjónustu hjá Reykjavíkurborg, segir starfsmenn tilbúna …
Eiður Fannar Erlendsson, yfirmaður vetrarþjónustu hjá Reykjavíkurborg, segir starfsmenn tilbúna að takast á við snjókomu morgundagsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eiður Fannar Erlendsson, yfirmaður vetrarþjónustu hjá Reykjavíkurborg, segir starfsmenn í snjómokstri vera í startholunum fyrir morgundaginn. Hann kveðst tilbúinn að kalla út auka starfskraft til að ryðja snjó af vegum á gamlársdag.

„Það gæti alveg gerst að færð í húsagötum verði erfið en við ættum að geta haldið stofnleiðum opnum. Fólk gæti þurft að leggja á sig að ganga eitthvað aðeins, maður verður að leggja eitthvað á sig fyrir gott djamm,“ segir hann og vísar til þess að fólk ætti að komast í áramótaveislur en þyrfti mögulega að ganga síðasta spölinn í húsagötum.

Eins og áður hefur verið greint frá er reiknað með þó nokkurri snjókomu og vindi á gamlársdag og gæti orðið ófært á höfuðborgarsvæðinu fram eftir degi. 

Fer allt eftir veðri

Hann segir að snjómokstur hefjist á stofnleiðum og safngötum en að íbúðargötur gætu þurft að mæta afgangi til að byrja með. Hann bætir við að óljóst sé hvenær snjómokstursvélar komist í húsagötur og að það fari að miklu leyti eftir því hversu mikil snjókoma verði og hversu mikið skefur.

„Ég er að vona að við fáum bara nokkra erfiða staði sem við getum þá einblínt á. Þegar veðrið skellur á okkur þá köllum við út og svo fer þetta bara eftir hversu lengi hvassviðrið stendur yfir.“

Aftur á byrjunarreit

Eiður tekur fram að mokstur í vikunni hafi gengið eftir áætlun en fyrr í vikunni reiknaði hann með að ljúka snjómokstri fyrir helgi. 

„Við erum að sjá fyrir endann á þessu. Við erum að ljúka þessu í efribyggðum og nokkrir staðir eftir í Austurbænum.“

Hann segir snjómokstur hafa gengið gífurlega vel miðað við aðstæður og vísar til þess að vanalega hafi moksturinn tekið fimm til sex daga. Hann bendir á að í þetta sinn höfðu þeir ekki fulla vinnuviku sökum frídaga vegna hátíðanna. 

Hann segir það þó hálf dæmigert að það stefni í að snjómokstur fari aftur á byrjunarreit degi eftir að hann klárast. 

„Við verðum komnir á núllpunkt aftur á morgun. Við höfum verið að lenda í því núna undanfarið. Þá endurtekur verkefnið sig og við byrjum aftur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert