„Maður skilur alveg pirringinn í fólki“

Um tuttugu tæki, stór og smá, sinna snjómokstri í Reykjavík …
Um tuttugu tæki, stór og smá, sinna snjómokstri í Reykjavík þessa dagana. mbl.is/Árni Sæberg

„Það gengur bara ágætlega og ég er vongóður um að þetta klárist fyrir helgi,“ segir Eiður Fannar Erlendsson, yfirmaður vetrarþjónustu hjá Reykjavíkurborg, um stöðuna á snjómokstri í borginni. Í gær var greint frá því að um fjóra til fimm daga tæki að klára gatnamokstur og útlit er fyrir að það gangi eftir.

„Þetta er knappur tími, það tekur yfirleitt um fimm daga að hreinsa húsagötur og við höfum ekki fulla fimm daga í þessari viku. Við höfðum því áhyggjur af því að þetta myndi ekki klárast allt saman, en það er ágætur gangur í þessu og við vonum að það gangi upp hjá okkur og þetta verði þokkalegt þar til næsti hvellur kemur,“ segir Eiður í samtali við mbl.is.

Hann hefur skilning á því að fólk sé þreytt á slæmri færð en segir alla vera að gera sitt besta við að greiða leið ökumanna og gangandi vegfarenda.

mbl.is/Arnþór

Byrja á núllpunkti í næstu snjókomu

Ef veðurspár ganga eftir verður rétt búið að ljúka þessari umferð í mokstri þegar aftur fer að kyngja niður snjó, en samkvæmt spánni á að snjóa töluvert í höfuðborginni á gamlársdag.

„Það stefnir mögulega í mikla snjókomu á gamlársdag. Það lítur ekki út fyrir að þetta sé að klárast neitt.“

Fari svo verða tæki við vinnu að halda stofnleiðum greiðfærum á hátíðisdögunum, en mokstur í íbúðagötum bíður fram yfir áramót.

„Þá byrjum við bara á núllpunktinum, að halda stofnleiðum opnum. Þegar úrkoma er hætt að falla og við með stofnleiðirnar í lagi, þá byrjum við í húsagötum en það er hætta á því að sú hreinsun geti ekki hafist fyrr en næsta virka dag,“ segir Eiður

„Það má alveg búast við því ef það fellur mikill snjór að færð geti spillst í húsagötum,“ bætir hann við.

Allir að reyna að gera sitt besta

Eiður bendir þó að það geti brugðið til beggja vona með veðrið. Spár séu sífellt að breytast og ekki sé endilega víst að úrkoma verði jafn mikil og langtímaspár gerðu ráð fyrir í fyrstu.

„Það verður allt svo erfitt og maður skilur alveg pirringinn í fólki þegar það eru margir dagar í röð eitthvað vesen. Þetta er erfitt og lýjandi.“

Aðspurður segir Eiður líka mæða mikið á þeim sem sinna mokstrinum, þeir vinni langa daga í svona törnum. „Það eru allir að reyna að gera sitt besta.“

Eiður segir alla vera að reyna að gera sitt besta.
Eiður segir alla vera að reyna að gera sitt besta. mbl.is/Arnþór

Stundum of þröngt vegna bíla 

Um tuttugu moksturstæki sinna snjómokstri í Reykjavík. Um er að ræða bæði stór og lítil tæki sem ryðja umferðargötur og göngustíga.

Mokað hefur verið í öllum hverfum en töluvert meiri úrkoma féll í efri byggðum og því meiri vinna við mokstur þar. „Það þyngdist miklu meira færðin þar heldur en vestur frá,“ útskýrir hann.

Þá hafi einhverjar götur orðið útundan en yfirleitt eigi það sér skýringar.

„Það eru einhverjar götur sem höfðu orðið eftir, en ekki heilu hverfin. Kannski einhverjir botnlangar. Það kemur oft til því mörgum bílum er lagt þar og stundum er of þröngt fyrir tækin. Þau komast en skilja eftir sig mikinn ruðning. Þeir taka oft ekki áhættuna ef það er mjög þröngt að keyra þétt upp við bíla götunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert