Eins og að hlaupa frá snjóflóði

Dóra Jóhannsdóttir, Sigurjón Kjartansson og Ragna Fossberg.
Dóra Jóhannsdóttir, Sigurjón Kjartansson og Ragna Fossberg. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dóra Jóhannsdóttir, leikstjóri Áramótaskaupsins árið 2022, er himinlifandi yfir viðtökunum sem það hefur fengið.

„Þetta gekk vonum framar. Í dag er ég í hálfgerðu spennufalli,“ segir Dóra í samtali við mbl.is, en ef marka má viðbrögð á samfélagsmiðlum voru landsmenn upp til hópa hæstánægðir með skaupið. 

Mikil tímapressa

Dóra segir ferlið að baki gerð áramótaskaupsins vera krefjandi en skemmtilegt í senn. „Það er mikil tímapressa og þeir sem hafa leikstýrt skaupinu lýsa ferlinu oft eins og maður sé að hlaupa frá snjóflóði.“

Sjálf horfði Dóra á skaupið með fjölskyldu sinni, eins og þorri landsmanna. Markmið hennar var að gera öllum aldurshópum kleift að njóta áhorfsins. 

„Mitt markmið í ár var að fá bæði 12 ára strákinn minn og áttræða ömmu mína og afa til þess að hlæja að skaupinu, sem tókst!“

Góður höfundahópur geri gæfumun

Dóra hefur komið að skaupinu áður, en hún leiddi höfundahóp skaupsins árin 2017 og 2019.

Í ár skipa höfundahópinn þau Sigurjón Kjartansson, sem er einnig framleiðandi þess, Vigdís Hafliðadóttir, Friðgeir Einarsson og Jóhann Kristófer Stefánsson.

Hlutverk leikstjóra er krefjandi, að sögn Dóru, en hæfileikaríkur höfundahópur skaupsins í ár gerði gæfumuninn, auk þess sem andinn í hópnum var einstaklega góður.

„Þau eru öll svo frumleg. Það skiptir líka svo miklu máli að geta sagt frá lélegu hugmyndunum sínum, til þess að komast að þeim góðu.“

Spurð hvort hún gæti séð fyrir sér að leikstýra áramótaskaupinu aftur seinna meir svarar Dóra hikandi:

„Ætli ég verði ekki fyrst að slaka aðeins á, áður en ég fer að pæla í næsta skaupi. Ég þarf kannski bara að skella mér til Tene.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert