Segir rugl að spítalinn sé ekki vanfjármagnaður

Kári segir óskynsamlegt af Birni að taka fram fyrir hendur …
Kári segir óskynsamlegt af Birni að taka fram fyrir hendur forstjóra LSH. mbl.is/Hallur Már

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir rugl að halda því fram að Landspítalinn sé ekki vanfjármagnaður, líkt og Björn Zoëga, forstjóri Karólínska sjúkrahússins í Stokkhólmi og formaður stjórnar Landspítalans, hélt fram í viðtali á RÚV í byrjun ársins.

Þetta kom fram í máli Kára í þættinum Sprengisandur á Bylgjunni í morgun.

„Ég trúi ekki að Björn sé á þeirri skoðun að spítalinn sé fyllilega fjármagnaður, vegna þess að hann er það ekki,“ sagði Kári meðal annars. Hann telur að Birni hafi orðið mistök. Hann hafi viljað segja að það væri margt fleira að á spítalanum en fjárskortur.

Bæði stjórnendur og starfsfólk Landspítalans hafa kallað eftir auknu fjármagni en Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hafna því að spítalinn sé vanfjármagnaður.

Óskynsamlegt að taka framfyrir hendur forstjóra 

Þá sagði Kári það ekki hlutverk formanns stjórnar Landspítalans að tjá sig á þennan hátt. „Hann er að grípa fram fyrir Runólfi Pálssyni, forstjóra spítalans, og það er óskynsamlegt.“

Þegar þáttastjórnandi spurði Kára hvort við yrðum ekki að gera ráð fyrir því að Björn vissi sínu viti vegna mikillar reynslu og velgengni starfi, sagði Kári ekki hægt að hlusta gagnrýnislaust á tillögur Björns. Hann hafi ekki komið með töfralausnir sem leysi okkar vandamál.

Kári sagði það flókið verkefni að halda utan um Landspítalann og það væri ekki gott ef stjórnarformaður og forstjóri töluðu ekki í takt.

Að hans mati er það alveg ljóst að velferðarsamfélagið er farið að gefa eftir og það sé ekki lengur sá griðarstaður sem það hafi verið. „Það er orðið mjög erfitt að telja sjálfum sér trú um að fólk sé öruggt í íslensku samfélagi, án þess að það sé tiltölulega vel fjáð. Og það er sárt.“

Bráðamóttakan alltaf kaos 

Hann sagðist þó ekki skilja af hverju menn væru sífellt að varpa höndum til himins út af bráðamóttökunni. Það væri í eðli hennar að þar væri kaos og ekki bara hér á landi, enda kæmi fólk þangað í angist sinni þegar eitthvað alvarlegt hefði komið fyrir.

Vandinn væri að erfitt væri að koma fólki af bráðamóttöku á legudeildir og þann vanda væri hægt að leysa. Kári talaði um að hægt væri að skilgreina sjúkrahús á tvenns konar hátt. Annars vegar þannig að hlutverk þess væri að annast fólk þangað til það gæti séð um sig sjálft.

Hins vegar þannig að sjúkrahús hefði ekki öðrum skyldum að gegna en að sjá um bráðavanda. Þá þyrftu hins vegar að vera hjúkrunarheimili til taks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert