Ástæða til að fara varlega

Víða um land hefur verið viðvarandi veikt lag í snjónum og mörg snjóflóð hafa fallið. Fyrir jólin og yfir hátíðirnar féllu stór snjóflóð af mannavöldum í og við Hlíðarfjall í Eyjafirði. Minni flóð hafa fallið á svæðinu það sem af er janúarmánuði, það síðasta á fimmtudaginn var. Þá féll snjóflóð innan við Flateyri í gær.

Samkvæmt snjóflóðahættumati Veðurstofu Íslands fyrir skíðasvæðið í Hlíðarfjalli eru snjóflóð tíð niður á merktar skíðaleiðir á svigskíðasvæði Hlíðarfjalls, einkum úr Hlíðarhryggnum niður í Suðurdalinn en einnig geta fallið stór flóð inn á skíðaleiðir sunnan Mannshryggjar sem náð geta endastöð stromplyftu og efsta hluta lyftunnar. Þess vegna og miðað við þessar aðstæður telur ofanflóðavakt Veðurstofu Íslands fulla ástæðu til að vara fólk við og biðja fólk að fara varlega á svæðinu.

Óliver Hilmarsson, sérfræðingur á sviði snjóflóða á ofanflóðavakt Veðurstofunnar, segir að það megi reikna með að sá veikleiki sem sást milli jóla og nýars og eftir áramótin í innanverðum Eyjafirði sé enn til staðar. Kominn sé meiri snjór ofan á. Það hafi ekki verið gott skyggni á svæðinu og það verði fróðlegt að sjá hvort ummerki um flóð muni sjást í dag þegar rofar til.

Tryggjum öryggi almennings

Brynjar Helgi Ásgeirsson, forstöðumaður skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli, segir að í sjálfu sér hafi ekki verið mikil hætta á ferðum þegar flóðin féllu í kringum jólin. Hann segir að það ríki gott samstarf milli forsvarsmanna skíðasvæðisins og Veðurstofu Íslands.

„Við gerum snjóflóðamat á hverjum degi og metum aðstæður eftir því. Við erum einnig farnir að nota sprengingar til að koma flóðum af stað. Þetta er fyrsti veturinn okkar í því og við erum enn að læra og þróa okkar aðferðafræði. Þetta eru mildunaraðgerðir með það að markmiði að sprengja áður en það mikill snjór safnast upp að hætta skapast á stórum snjóflóðum.

Brynjar Helgi Ásgeirsson, forstöðumaður skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli.
Brynjar Helgi Ásgeirsson, forstöðumaður skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Við erum með opið skíðasvæði fyrir almenning og það er okkar skylda að tryggja að skíðaleiðir séu öruggar. Við opnum aðeins þær skíðaleiðir sem við teljum öruggar, aðrar opnum við að sjálfsögðu ekki. Það þarf að gera greinarmun á merktum skíðaleiðum og opnum skíðaleiðum.“

Snjóflóð féll innan við Flateyri

Óliver sagði nokkuð stórt snjóflóð hafa fallið í Miðhryggsgili innan við Flateyri rétt fyrir miðnætti í gær.

„Flóðið féll ofan við veg en flóð á þessu svæði geta ógnað Flateyrarvegi. Vegurinn hafði verið á óvissustigi áður en hann var kominn af óvissustigi þegar flóðið féll og ekki var mikið að veðri þegar flóðið fór af stað.“

mbl.is