Íslendingur bíður dóms í Danaveldi

Gísli Tryggvason lögmaður var lengi bú­sett­ur í Dan­mörku og reynd­ar …
Gísli Tryggvason lögmaður var lengi bú­sett­ur í Dan­mörku og reynd­ar fædd­ur í Ber­gen í Nor­egi og leika skandi­nav­ísku mál­in hon­um því á tungu enda hef­ur tölu­vert af lög­manns­störf­um hans snú­ist um mál sem rek­in eru Norður­landa á milli og hef­ur hann hvort tveggja flutt mál fyr­ir fær­eysk­um dóm­stól sem og dönsk­um. Ljósmynd/Aðsend

„Þeir hafa nú gefið út þrjár ákærur í þessu og alltaf eitthvað leiðrétt,“ segir Gísli Tryggvason lögmaður í samtali við mbl.is, nýkominn úr málflutningi í Héraðsdómi Randers í Danmörku þar sem aðalmeðferð var að ljúka í máli Íslendings sem ákærður er fyrir brot gegn tveggja ára gömlum lögum Dana um óðs manns akstur, lov om vanvidskørsel eins og þau heita upp á dönsku, og mbl.is fjallaði um í mars í fyrra.

„Saksóknari bætti til dæmis við ákæruna kröfu um að hann kæmi ekki aftur til Danmerkur næstu sex ár og það bökkuðu þeir ekkert með þótt þetta sé nú ekki alvarlegt mál, ég hef nú flutt alvarlegri mál að þessu leyti, meðal annars í Danmörku, svo við vorum mjög hissa á þessu,“ heldur Gísli áfram.

Málavöxtu má lesa í viðhlekkjaðri frétt hér að ofan en í örstuttu máli leyfa nýju lögin upptöku ríkisins á ökutækjum séu tvö skilyrði laganna fyrir hendi, að ekið sé hraðar en á 100 kílómetra hraða miðað við klukkustund og á meira en tvöföldum leyfilegum hámarkshraða.

Bílaleigan mun krefjast bílverðsins

Íslendingurinn ákærði var mældur á um 110 kílómetra hraða á svæði með 50 kílómetra hámarkshraða og hafði nýverið ekið inn á það af svæði með 60 kílómetra takmörkum. Sá munur gerði hins vegar útslagið þar sem síðara skilyrði laganna telst uppfyllt á 50-svæði. Ökutækið var bílaleigubifreið og verði hún gerð upptæk krefur bílaleigan Íslendinginn um bílverðið.

Gísli segir að krafan um sex ára landvistarbann hafi gert það að verkum að ekki mætti flytja málið í tvennu lagi og heldur ekki gegnum sendiráð, en þegar mbl.is ræddi við Gísla í mars í fyrra var hann nýkominn frá því að flytja mál sitt fyrir dönskum dómstól gegnum fjarfundabúnað frá danska sendiráðinu í Reykjavík.

„Þess vegna erum við núna hérna í Danmörku, við skjólstæðingur minn, og þurftum að fara til Jótlands til að flytja málið,“ segir Gísli frá. Sem fyrr segir eru ákæruskjölin orðin þrjú og tilraunirnar til að halda aðalmeðferð málsins fyrir héraðsdómi jafn margar.

Telja um augnabliksgáleysi að ræða

„Fyrst átti aðalmeðferð að vera 26. apríl en daginn áður uppgötvaði saksóknari að hann hafði gleymt þessari kröfu um að ákærði mætti ekki koma til Danmerkur í sex ár svo því var bætt við og við vorum alveg tilbúnir að klára málið þannig, gátum alveg undirbúið það með dags fyrirvara, en dómari taldi ekki rétt að aðskilja málið þá,“ segir Gísli.

Næst hafi ætlunin verið að halda aðalmeðferð í júní en henni verið aflýst með eins virks dags fyrirvara vegna réttarfarsflækju sem einnig hefði komið til af því að ekki var unnt að flytja höfuðákæruliðinn annars vegar og kröfuna um endurkomubann hins vegar. Þar með hafi málið tafist í hálft ár og aðalmeðferð þess lokið í dag.

„Eitt af því sem við sækjandinn tókumst á um var hvort þetta stæðist lög, en því miður er Hæstiréttur hér [í Danmörku] nýbúinn að komast að þeirri niðurstöðu að almennt standist þessi löggjöf um ofsaakstur,“ heldur Gísli áfram. „Ég benti auðvitað á ýmsa fyrirvara í úrskurði Hæstaréttar, þar á meðal um að gæta beri meðalhófs og skoða hvert tilvik fyrir sig. Við teljum auðvitað að þetta tilvik sé það vægt brot, augnabliksgáleysi, að það eigi að sýkna hann af þessari upptökukröfu sem er auðvitað aðalmálið en svo er líka krafa um óskilorðsbundna fangelsisrefsingu í einn mánuð, sviptingu ökuréttar í fjögur ár og endurkomubann til Danmerkur í sex ár,“ segir Gísli af kröfum danska saksóknarans.

Ekkert skilti boðaði 50 km hámarkshraða

Krefjast þeir skjólstæðingur hans sýknu af upptökukröfu í bifreiðina, fangelsisrefsingunni og endurkomubanninu og styttingu ökuleyfissviptingarinnar. „Við hefðum aldrei lagt svona mikið í þetta ef þarna væri ekki undir upptaka á fjögurra milljóna króna bíl,“ segir verjandinn.

Lögregla lagði hald á bifreiðina strax eftir hraðakstursbrotið og hefur bílaleigan því rukkað ákærða um leigugjald allar götur síðan, frá 20. desember 2021, auk þess sem hún mun krefjast kaupverðs bifreiðarinnar falli dómur svo að upptakan verði samþykkt. Háar fjárhæðir eru því í húfi, leigugreiðslur í rúmt ár auk bílverðsins.

„Við vísum meðal annars til refsiréttarlegra mildunarsjónarmiða, hann var rétt kominn inn í þéttbýli með 50 kílómetra hámarkshraða og það staðfesti lögreglumaður sem kom fyrir dóminn í morgun, hann var kominn innan við hundrað metra inn fyrir mörkin. Við byggjum einnig á því að þarna var ekkert skilti sem sýndi 50 kílómetra hámarkshraða, bara skilti sem sýndi töluna 60 með striki yfir,“ segir Gísli og bætir því við að merking um að þarna lægju mörk þéttbýlis væri ákaflega ógreinileg á örsmáu skilti.

Eygja þeir skjólstæðingurinn þá von í málaferlunum?

„Já já, við hefðum aldrei farið út í þetta annars. Það þýðir lítið að vefengja löggjöfina í heild úr því Hæstiréttur er búinn að komast að þessari niðurstöðu, að almennt standist lögin með fyrirvara um ýmsa alþjóðasáttmála og undantekningarreglur í lögunum, þannig að við byggðum frekar á þessum undantekningarreglum og almennum refsiréttarsjónarmiðum um að í þessu tilviki væri þetta ekki svo alvarlegt brot,“ útskýrir Gísli.

Umfang, kvíði og fé

Fari allt á versta veg og héraðsdómur dæmi bifreiðina upptæka ríkissjóði mun lokavörnin fara fram fyrir íslenskum dómstólum þar sem vörn leigutakans sem neytanda verði lögð undir. „Þar höfum við meðal annars það sjónarmið að leigusamningurinn, með þessum flóknu og nýju dönsku lagareglum, var á dönsku og leigutakinn og ákærði, sem var ökumaðurinn, tala ekki dönsku. Þetta er búið að kosta mikið umfang, kvíða og fé,“ segir Gísli með þunga.

Allt kemur þetta í ljós eftir viku þegar héraðsdómarinn í Randers kveður upp dóm sinn. „Danir eru miklu fljótari, danskir dómstólar kveða upp dóma mun hraðar en íslenskir, en rökstuðningurinn er hins vegar stundum heldur knappari en við erum vön á Íslandi, réttarfarið er aðeins óformlegra hér,“ segir Gísli Tryggvason lögmaður í samtali frá Danmörku þar sem þeir skjólstæðingur hans bíða nú dóms í málaferlum um óðs manns akstur þar sem háar fjárupphæðir, fangelsisrefsing, ökuleyfissvipting og sex ára endurkomubann til Danmerkur er í húfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert