Andlát: Karl G. S. Benediktsson

Karl G. S. Benediktsson.
Karl G. S. Benediktsson.

Karl Gottlieb Senstius Benediktsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari í handknattleik, lést á hjúkrunarheimilinu Ási í Hveragerði 8. desember 2022, 89 ára að aldri.

Karl fæddist í Vinaminni á Stokkseyri 1. júlí 1933. Foreldar hans voru hjónin Benedikt Benediktsson bifreiðarstjóri og Anna Jónsdóttir húsfreyja.

Karl gekk í Verzlunarskólann og lauk í kjölfarið námi sem loftskeytamaður. Hann starfaði sem loftskeytamaður við herstöðina í Aðalvík en sneri sér síðan að stjórnunarstörfum, fyrst í byggingariðnaði og síðar við stjórn lífeyrissjóða. Síðast var hann forstöðumaður Framsýnar.

Framan af ævi átti handboltinn hug Karls. Hann var meðal annars í landsliði Íslands sem keppti á fyrsta heimsmeistaramótinu sem Ísland tók þátt í árið 1958 og einnig í landsliðinu sem keppti á HM árið 1961 þar sem Ísland endaði í 6. sæti. Hann sneri sér síðan að þjálfun og var af mörgum talinn faðir nútímahandboltans hér á landi. Í bók Sigmundar Ó. Steinarssonar, Strákarnir okkar, segir m.a. að brotið hafi verið blað í íslenskum handknattleik þegar Karl fór að þjálfa lið Fram því hann innleiddi kerfisbundinn handknattleik, lét menn leika í föstum stöðum og tímasetningar voru í leiknum. Karl stýrði Fram sjö sinnum til Íslandsmeistaratitils á árunum 1962 til 1972. Þá urðu Víkingar Íslandsmeistarar árið 1975 undir stjórn hans.

Karl var landsliðsþjálfari 1964-1967 og 1972-1974 og stýrði íslenska liðinu á tveimur heimsmeistaramótum. Íslenska landsliðið á HM í Svíþjóð lék með sorgarbönd í leiknum við Portúgal í gærkvöldi vegna andláts Karls.

Eftir handboltann sneri Karl sér að hestamennsku og stundaði ferðalög á hestum og hrossarækt á Gerðum í Vestur-Landeyjum og eru afkomendur úr ræktun hans meðal bestu hrossa Íslands.

Karl kvæntist Ellen Júlíusdóttur, þau skildu. Dóttir þeirra er Anna Stella. Hann kvæntist Eygló Hallgrímsdóttur, þau skildu. Börn þeirra eru Örn, Benedikt, Sóley og Laufey. Karl kvæntist Margéti Grettisdóttur, þau skildu. Dóttir þeirra er Rakel. Karl var í sambúð með Huldu Heiðarsdóttur til dánardags. Sonur hennar er Jón Heiðar Sveinsson.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert