Kallaður „kynvillingurinn í Keflavík“

„Kallinn í brúnni“ í fullum skrúða á aðfangadagskvöld 2020, Covid-jólin …
„Kallinn í brúnni“ í fullum skrúða á aðfangadagskvöld 2020, Covid-jólin hin fyrri. Einar siglir þarna frá Aberdeen í Skotlandi á fleyinu NAO Guardian. Ljósmynd/Ronald Jurek

„Á ég að fara með eigin líkræðu yfir sjálfum mér?“ spyr Einar Örn Einarsson í Fosnavåg í Noregi og hlær við, nýbúinn að sækja móður sína á flugvöllinn sem komin er til tveggja vikna dvalar meðan skipt er um gólf heima hjá henni.

Hóf blaðamaður samtalið á að biðja Einar að fara yfir lífshlaup sitt sem verður að minnsta kosti að teljast býsna hressandi líkræða en þrátt fyrir að Einar sé nú öryggis- og gæðastjóri útgerðarinnar Remøy Shipping AS í Fosnavåg í Mæri og Raumsdal hefur hann sungið og leikið á orgel við samtals 11.000 kistulagningar og útfarir um dagana, rekið flugskóla, verið skipstjóri víða um heim og starfað hjá Landhelgisgæslunni, Eimskip, hvalaskoðunarfyrirtækinu Eldingu, Hval h/f og fjölmörgum vinnustöðum öðrum.

„Ég er Skagamaður að uppruna, alinn upp þar, og byrja snemma að sækja Akraneskirkju, ég er tekinn inn í kirkjukórinn þar átta ára gamall, kunni öll messusvörin og allt,“ segir Einar af æskuárunum en hann kom í heiminn á því herrans ári 1963 svo tíminn sé settur í samhengi. „Á sama tíma var ég algjör fjörulalli og oftast niðri á bryggju,“ rifjar Einar upp frá æskunni á Akranesi sem átti eftir að setja mark sitt á allt hans líf.

Misnotaður sex ára gamall

„Ég þorði að vera ég í uppvextinum og fljótlega kom að því að ég fór að sýna ýmis teikn um að ég væri hommi og í kjölfarið verð ég fyrir svakalegu einelti öll mín æskuár, en það var ekki fyrr en síðar á ævinni sem það kom í ljós hvaða skugga ég var í raun að berjast við þarna,“ heldur Einar áfram.

Á borpallaskipi í Norðursjónum þar sem gullkálfur Norðmanna er fóðraður …
Á borpallaskipi í Norðursjónum þar sem gullkálfur Norðmanna er fóðraður nótt sem nýtan dag. Sautján milljónir tonna af rörum, tækjabúnaði, sementi og ótalmörgu öðru fara ár hvert út á norska olíuborpalla með birgðaskipunum. Ljósmynd/Aðsend

Rótin þar hafi ekki komið í ljós fyrr en löngu síðar, þegar Einar var að skilja við þáverandi mann sinn síðar á ævinni. „Þá brotna ég niður og þá kemur í ljós mjög alvarleg misnotkun sem ég lenti í þegar ég var sex ára gamall, sem betur fer utan fjölskyldunnar. Það mál var ekkert rætt, ég reyndi eitthvað að opna það og fékk þá bara framan í mig „Hættu þessum aumingjadómi!“ og svo blandast skömmin yfir þessu saman við að vera hommi,“ segir Einar, þó allt með þessum lauflétta talanda sem einkennir allt hans fas. Hann er langan veg frá því að hljóma eins og maður sem rifjar upp dimmasta dal tilveru sinnar.

Útrás Einars var tónlistin, stoð hans, stytta og einn stærsti hæfileiki mestan hluta þeirra sextíu ára sem jarðvist hans nær. „Ég fór snemma að heiman, var unglingur, ég fór í Söngskólann í Reykjavík og allt í einu er ég byrjaður átján ára gamall að syngja með Ljóðakórnum, gamla Einsöngvarakórnum, sem atvinnusöngvari og hafði lært á orgel samhliða þessu. Ég var söngvari að atvinnu í ellefu ár en var svo í hvalnum á sumrin þar sem faðir minn vann,“ segir Einar af þessum ólíka starfa og á við Hval h/f í Hvalfirðinum. „Svona hef ég alltaf verið undarlega skrúfaður saman,“ bætir hann við í glettnum tón.

Lifað hratt og lifað mikið

Einar kom snemma út úr skápnum eins og sagt er og var kominn í sína fyrstu sambúð með karlmanni átján eða nítján ára. Þarna var öldin önnur en nú er og íslenskt samfélag átti langt í land með að geta kyngt samkynhneigð sem hluta daglegs lífs.

Einar ásamt móður sinni, Guðnýju Ernu Þórarinsdóttur, sem var einmitt …
Einar ásamt móður sinni, Guðnýju Ernu Þórarinsdóttur, sem var einmitt nýkomin í heimsókn til hans til Fosnavåg þegar þetta viðtal var tekið. Ljósmynd/Prior Örn Naksuwan Einarsson

„Þetta er rétt fyrir alnæmisárin og það er lifað mjög hratt og lifað mikið og ég í mörgum vinnum eins og loddi við mig allar götur síðan. Ég er kominn í stjórn Samtakanna '78 nítján ára gamall og er í henni þegar við fáum Harald Briem og Kristján Erlendsson lækna til að koma upp í samtök og taka fyrstu blóðprufurnar. Og þarna koma fyrstu smitin í ljós, þetta er 1982,“ segir Einar frá.

Þá hafi alnæmisárin tekið við og reynt mjög á þolrif samkynhneigðra karlmanna sem heildar. „Ég var náttúrulega farinn að byggja mér upp einhverja öðruvísi fjölskyldu eins og margir hommar gera. Margir dóu, sumir þeirra féllu fyrir eigin hendi eða dóu úr neyslu. Þetta rótaði upp í öllu og margir misstu hreinlega fótanna í þessu öllu saman,“ segir Einar frá og rifjar upp sögu frá þessum sérstaka tíma þegar framandi hugtök á borð við eyðni, alnæmi og HIV ruddust inn í vitund íslenskrar þjóðar.

Kirkjunnar menn tóku upp símtólið

„Ég söng einsöng í Fríkirkjunni í Reykjavík, alnæmismessu sem útvarpað var, árum saman. Það þorði enginn annar að gera það „over the rainbow“. Og ég fékk skammir fyrir, ég fékk símtöl innan úr kirkjunni sem voru mjög ógeðsleg, að ég væri að styðja þetta „fjandans pakk“. „Og ertu með þessa pest sjálfur?“ var ég spurður,“ segir Einar af því þegar kirkjunnar menn tóku upp símann á alnæmisárunum. Og hann kann aðra sögu úr íslensku samfélagi níunda áratugarins, sú er úr lyftunni í Borgarspítalanum af öllum stöðum.

„Ég var mjög duglegur að heimsækja vini mína sem voru með alnæmi á spítalann. Ég man að eitt sinn var ég uppi á A7 að heimsækja vin minn sem lá fyrir dauðanum. Og á leiðinni niður í lyftunni hitti ég fólk sem ég kannaðist við. Ég spurði hvaða erindi fólkið ætti á spítalanum og var sagt að það hefði verið í heimsókn hjá frænku sem væri að deyja úr krabbameini. Ég tjái þeim auðvitað samúð mína og er þá spurður hvað ég sé að gera þarna og segi sem er að vinur minn sé að deyja úr alnæmi og ég reyni að heimsækja hann eins oft og ég geti. Þá bara bókstaflega sneru þau sér við, öll fjögur, eins og á sjálfstýringu, og sögðu ekki aukatekið orð meira,“ segir Einar af lyftuförinni.

Einar ásamt Priori Erni Naksuwan Einarsson eiginmanni sínum á Jónsmessu …
Einar ásamt Priori Erni Naksuwan Einarsson eiginmanni sínum á Jónsmessu í fyrra við Slinningsbålet í Ålesund. Ljósmynd/Aðsend

„Alnæmið kallaði líka á fordóma inni í hommasamfélaginu. Við vorum nokkrir ósmitaðir sem vorum duglegir að standa með veikum vinum okkar. Þá vorum við sagðir smitaðir og aðrir hommar varaðir við okkur. Það sat lengi í mörgum okkar,“ rifjar Einar upp frá níunda áratugnum.

Brann upp á kristnihátíðarárinu

Þar með er komið að rúmum áratug Einars í stöðu organista við Keflavíkurkirkju, afdrifaríkum kafla í lífi hans sem bauð ekki eintómar góðar minningar í veganesti. Öðru nær. Áður en hann réð sig þangað leysti hann af sem organisti við Akraneskirkju árin 1989 til 1990 og hélt svo utan í nokkurra mánaða orgelnám til Hamborgar, þess gamla vígis hansakaupmanna í Þýskalandi.

„Þegar ég kem þaðan fæ ég stöðu organista við Keflavíkurkirkju. Það bara atvikaðist þannig, ég var eiginlega beðinn að sækja um, það var eitthvert vandræðaástand,“ rifjar Einar upp af því sem átti eftir að verða ellefu ára dvöl. „Ég segi það oft að þar hafi ég átt mín bestu og verstu ár samtímis,“ heldur hann áfram. „Ég brenn upp á kristnihátíðarárinu [2000], tek mér ársleyfi og ég kom aldrei til baka.“

Einar átti sín bestu og verstu ár samtímis sem organisti …
Einar átti sín bestu og verstu ár samtímis sem organisti í Keflavík allan tíunda áratuginn þar sem hann fékkst við ýmislegt fleira en tónlistina, var til dæmis í bæjarmálapólitíkinni svo eitthvað sé nefnt. Ljósmynd/Aðsend

Einar kveður margs góðs að minnast frá árunum ellefu í Keflavík. „Þarna var rífandi starf og frábær hópur sem ég vann með öll árin, við héldum fjölda tónleika. Ég byrjaði til dæmis með það sem kallað var Jólasveifla Keflavíkurkirkju, fyrstu léttu jólatónleikarnir sem voru með popphljómsveit og svona, þetta þekktist hvergi annars staðar. Mitt mottó var að hafa frítt inn á þá, ekki af einhverjum markaðshvötum heldur bara af gleði,“ segir Einar. Gagnrýnin innan úr þjóðkirkjunni hafi hins vegar ekki látið á sér standa frekar en á alnæmisárunum.

„Ég var að opna fyrir fjandann, hvað er kynvillingurinn í Keflavík að gera með þetta og bla bla bla. Á sama tíma eru skuggarnir frá sex ára aldri að elta mig. Ég áttaði mig aldrei á því en var samt á stöðugum flótta þannig að ég drekkti mér bara í vinnu. Ég var á tímabili yfirmatreiðslumaður á veitingahúsi, ég var leiðsögumaður, ég var að leysa af í kennslu, syngja og spila við jarðarfarir úti um allt og veislustjóri hingað og þangað auk þess sem ég var í pólitík í Keflavík, var í bæjarmálunum þar og gifti mig meira að segja þar,“ telur Einar upp glaðbeittur á meðan blaðamaður fær vægt aðsvif á hinum enda símtalsins.

Í hnipri á eldhúsgólfinu

Eitthvað hlaut þó að lokum undan að láta og það fyrsta sem brast var hjónabandið. Þá var Bakkus gamli á næsta leiti. „Þá er drykkjan komin inn í spilið hjá mér. Þá er ég farinn að drekka, ég er farinn að drekka mikið og oft og missi tökin á ýmsu. Ég er í bullandi vinnufíkn og áfengisfíkn sem herti tökin hratt,“ segir Einar sem fór fljótt að finna fyrir byrjunareinkennum kulnunar, áhugaleysi og einbeitingarskorti.

„Þetta var mjög manískt, ég var að stjórna mörgum kórum og fann það alveg að inni í mér var ég að deyja en út á við var ég að gefa. Sálfræðingurinn minn, sem hjálpaði mér að vinna úr þessu, hann er nú dáinn núna blessaður, sagði mér að ég hefði einhvers konar eðlisgreind, þrátt fyrir allt næði ég að koma mér út úr þessu öllu saman boginn en ekki brotinn.“

Siglt inn í Upper Dock í Aberdeen, systurskipið NAO Prospect …
Siglt inn í Upper Dock í Aberdeen, systurskipið NAO Prospect lengst til vinstri. Ljósmynd/Aðsend

Að lokum var óumflýjanlegum hápunkti firringarinnar náð. Einar hrundi eins og spilaborg. „Ég man eftir mér í hnipri á eldhúsgólfinu heima og leið eins og ég væri að brjóta utan af mér malbik og æla malbiki,“ segir hann. Og þá var komið að vendipunkti. „Þarna man ég hvað gerðist þegar ég var sex ára, það skall allt í einu á mér. Ég var misnotaður af feðgum. Og ég ætlaði mér bara að heimsækja þá í bæinn sem þeir bjuggu í og bara ganga frá þeim,“ segir hann frá.

Alkóhólisminn beið á tröppunum

Þá gripu örlögin í taumana. Hálfsystir Einars var á þessum tíma kennari í barnaskóla í Keflavík og sat á fundi í skólanum, skammt frá heimili hálfbróður síns. „Hún finnur bara að eitthvað er að hjá mér, afsakar sig á fundinum og fer heim til mín. Þar mætir hún mér í dyrunum alveg svörtum af reiði og nær að tala mig til um leið og hún fær að vita sannleikann í málinu, hún hafði auðvitað velt því fyrir sér í mörg ár hvaða myllustein ég væri með um hálsinn.“

Einar leitaði í kjölfarið til sálfræðings sem hann þekkti og fékk þar góða hjálp auk þess sem hann skrifaði sig frá logandi sálarkvölinni, fyllti tugi stílabóka af hugleiðingum sínum og öðlaðist við það einhvers konar ró. Fleiri ljón reyndust þó í veginum. „Þá beið alkóhólisminn bara á tröppunum. Þegar þetta var farið var allt hitt eftir svo ég fór bara að drekka enn þá meira og keyri mig endanlega út. Á þessum tíma voru líka erfiðleikar í Keflavíkurkirkju sem enduðu í fjölmiðlum, þeir snerust ekki um mig en ég dróst inn í þá,“ segir Einar sem átti ekki andlega inneign til að standast þessa orrahríð.

Á „Eldingarárunum“ í Keflavík. Einar varð fyrir því að stranda …
Á „Eldingarárunum“ í Keflavík. Einar varð fyrir því að stranda einum hvalaskoðunarbátnum sem varð honum áfall. Hann brást við með því að skrá sig í Stýrimannaskólann löngu eftir að umsóknarfrestur var liðinn og útskrifaðist þaðan dúx ásamt Halldóri Nellett skipherra. Ljósmynd/Aðsend

Þar með var komið að lokum ferilsins í Keflavíkurkirkju, kristnihátíðarárið sem fyrr segir, og aðrir sálmar tóku við. Allt aðrir. Vinur Einars bauð honum í flugtúr sem varð til þess hann lærði sjálfur að fljúga og keypti hlut í flugskólanum Flugsýn og flugfélaginu Jórvík, hvatvísin aldrei nema nokkra millimetra undan á þessum bænum.

Missti aleiguna í þrígang

Til að gera söguna af tveggja ára ævintýri stutta missti Einar aleiguna þegar þessi starfsemi fór á höfuðið. „En ég hafði svo sem reynt það áður, því eftir fyrsta sambandið mitt missti ég aleiguna líka og svo í þriðja skiptið í bankahruninu,“ segir Einar frá en á þó ekki í neinum vandræðum með að hlæja að þessum þremur þrotum sínum. „Ég er búinn að byrja þrisvar á núlli,“ segir hann og kveðst alltaf hafa komist á fætur aftur. „Og þá ákvað ég að skella mér á sjóinn,“ heldur organistinn ævintýragjarni áfram. Nema hvað?

Hann ræður sig til hvalaskoðunarfyrirtækisins Eldingar sem leiðsögumann auk þess að dusta rykið af gömlu pungaprófi og verða skipstjóri á minnsta hvalaskoðunarbátnum samhliða leiðsögumennskunni. „Svo lendi ég í því að stranda honum haustið 2002 og tek því mjög illa, þetta atvik eyðilagði alveg drauminn minn. En góðir vinir mínir hjálpuðu mér á fætur og þau hjá Eldingu komu mér bara um borð aftur eftir að ég hafði fengið smá áfallahjálp á Landspítalanum, hjá honum Rudolf [R. Adolfssyni geðhjúkrunarfræðingi],“ segir Einar af strandinu örlagaríka.

Kærleikurinn blómstrar og einhvern veginn sést alltaf glitta í hafflötinn …
Kærleikurinn blómstrar og einhvern veginn sést alltaf glitta í hafflötinn nálægt Einari. Ljósmynd/Aðsend

Hann ákveður þá að taka skipstjórnina alla leið, hringir í Guðjón Ármann Eyjólfsson heitinn, skólastjóra Stýrimannaskólans, og boðar komu sína löngu eftir lok allra umsóknarfresta og kennsla nánast hafin. „Ég útskrifast svo þaðan haustið 2004 og við Halldór Nellett skipherra fáum hæstu einkunn sem gefin var í gamla einkunnakerfinu. Ég næ að fókusera, þarna er ég orðinn edrú, ég átti mitt síðasta fyllerí á hvítasunnunni 1999. Þá sá ég upptöku af mér að spila á orgelið í kirkjunni, þetta var sýnt í sjónvarpinu. Þar sem ég er að spila þarna geri ég hlé til að klóra mér í nefinu með hægri hendinni. Það var nóg, ég fór á fljúgandi fyllerí,“ segir Einar og hlær.

Hausinn í gang eftir sporin tólf

„Þá nótt náði ég botninum og leitaði til AA-samtakanna morguninn eftir. „Ertu loksins kominn?“ var sagt þar. Ég skellti mér þá í AA-prógrammið og tók 110 fundi á 90 dögum,“ segir Einar, öfgamaður fram í fingurgóma í öllu sem hann tekur sér fyrir hendur. Þessu fylgdu sporin tólf hjá AA-samtökunum þremur árum síðar og að þeirri vinnu lokinni fannst Einari hann í fyrsta sinn ná fótfestu á jörðinni. „Hausinn á mér fór að fúnkera,“ lýsir hann því sjálfur.

Þessi fyllerís- og þurrkunarsaga var útúrdúr, skemmtilegur þó, en sem dúx frá Stýrimannaskólanum ræður Einar sig sem stýrimann hjá Landhelgisgæslunni og starfar fram að bankahruni. „Þá tók ég mér ársfrí, allt var skorið niður í hruninu, þá var ég búinn að vera hjá Gæslunni frá 2005 til 2009 og þá kem ég hingað út,“ segir Einar af fyrstu skrefunum í Noregi.

Hann er ráðinn til útgerðar í Fosnavåg, verður þar yfirstýrimaður tiltölulega fljótt og ræður sig til annarrar og stærri útgerðar þar sem sjálft hásætið í brúnni bíður hans, skipstjórastaða. „Ég bjó samt alltaf á Íslandi,“ útskýrir Einar sem var á olíuborpallaskipi en þar eru áhafnir í siglingum í mánuð og eiga svo frí í mánuð. Fríinu varði Einar á Íslandi þar sem hann var að sjálfsögðu líka í vinnu. Hver þarf allt þetta frí?

Ástin kviknaði á lýðnetinu

Einar skiptir um útgerð einu sinni í viðbót og er þá kominn til núverandi vinnuveitanda, Remøy Shipping, sem nappaði honum eiginlega til sín með svokallaðri hausaveiði. Þar er hann skipstjóri fyrstu árin en gegnir nú stöðu öryggis- og gæðastjóra, HSEQ manager eins og það kallast. Í kjölfarið flytur Einar alfarið til Noregs.

Einar fann fótfestu á jörðinni eftir að hafa fetað sporin …
Einar fann fótfestu á jörðinni eftir að hafa fetað sporin tólf hjá AA-samtökunum. „Ertu loksins kominn?“ sögðu AA-menn þegar organistinn hafði fundið sinn botn og sótti í kjölfarið 110 AA-fundi á 90 dögum. Ljósmynd/Aðsend

Hann býr nú í Fosnavåg með taílenskum eiginmanni sínum sem hann kynntist á lýðnetinu árið 2005 þrátt fyrir að fundum þeirra bæri ekki saman fyrr en 2008. „Við giftum okkur á Íslandi það ár og eigum hús í Taílandi. Þar kynnist ég í fyrsta sinn búddísku afslöppuðu samfélagi,“ segir Einar sem nú er byrjaður að syngja og spila á ný eftir að tónlistin hvarf úr lífi hans í kjölfar Keflavíkurævintýrisins.

„Mér hefur líklega aldrei liðið eins vel og núna. Þegar maður er með skugga fortíðar á eftir sér í meðvirkni og angist og undir því spila kvíði, vanmáttarkennd og ótti þá fer maður oft að iðka andstæður sínar og sækja í skemmtanalífið. Manni finnst maður ekki mega missa af neinu í kúltúrlífinu. Ég seldi mér það gegnum öll þessi ár að það væri ég, þessi rosalega félagsmálavera. Nú skil ég það þegar ég er kominn á seinni hálfleikinn að ég er það ekki,“ segir Einar og dillandi hláturinn ómar símleiðis frá Mæri og Raumsdal.

Alkinn og homminn það heilasta

Hann kveðst nú í fyrsta sinn lifa við það þægilega frelsi að hann þurfi ekki að vita allt, þurfi ekki að kunna allt og þurfi ekki að hafa skoðanir á öllu. „Það er alveg æðislegt frelsi og það að vera kominn hingað til Noregs gerir mér mjög gott. Þótt ég elski Ísland er Ísland ekkert hollt fyrir mig eins og sakir standa. Hérna hef ég komist þangað sem ég er á mínum verðleikum, hér er engin klíka, maður hringir ekkert í einhverja vini hér til að fá vinnu. Hér er heldur ekki verið að krefja mann um að hafa einhverjar skoðanir eða vera í einhverju liði. Hérna fæ ég bara að vera ég,“ segir Einar í einlægni.

Hann á bát í Fosnavåg og segir náttúrufegurðina á svæðinu einstaka. „Þetta er svona eins og fimm Vestmannaeyjar,“ lýsir hann staðháttum, „við erum mikið úti að sigla hérna og erum með eplatré í garðinum,“ segir Einar og játar að hann hafi tekið lóðs- eða hafnsögumannsréttindi við Noregsstrendur bara til að hafa þau. „Þetta er eitthvert blæti í mér að ég verð að vera með réttindi á allt, hvort sem eru bátar, bílar eða flugvélar,“ segir hann og ber norsku samfélagi vel söguna, það einkennist að hans mati af hógværð og kurteisi. „Hér er enginn að bögga mann,“ segir hann og hlær við.

Um borð í Blue Protector, frá vinstri Lucas Karlsen yfirstýrimaður, …
Um borð í Blue Protector, frá vinstri Lucas Karlsen yfirstýrimaður, Einar skipstjóri og Heimir Magnússon rafvirki. Ljósmynd/Aðsend

Við nálgumst lok hreinnar rússíbanareiðar um ævi og störf Einars Arnar Einarssonar, organista, skipstjóra, stýrimanns, leiðsögumanns, flugmanns, veislustjóra, öryggis- og gæðastjóra og almenns lífskúnstners. Sýn hans á lífið hefur einfaldast til muna á vegferðinni síðan barnsskónum var slitið á bryggjunni og í kirkjunni á Akranesi á sjöunda áratug síðustu aldar.

„Ég kverúlera ekki um guð, ég kverúlera ekki um AA og nú skipti ég fólki bara í tvo hópa orðið. Er manneskjan nærandi eða er hún tærandi? Ég er búinn að einfalda líf mitt markvisst síðan ég varð edrú og get sagt það svona að lokum að það heilasta í mér er alkinn í mér, sem er sem betur fer í bata, og homminn í mér,“ segir skipstjórinn í Fosnavåg sem fær nú loks að fara að sinna nýkominni móður sinni eftir tæplega klukkustundarlangt símtal.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »