Bridshátíð verður hluti af alþjóðlegri stigamótaröð

Úr spilasalnum á Evrópumótinu í brids í Ungverjalandi.
Úr spilasalnum á Evrópumótinu í brids í Ungverjalandi.

Tilkynnt var í vikunni að sveitakeppnin á Bridshátíð, sem hefst í Hörpu í kvöld, verði hluti af nýrri mótaröð Alþjóðabridgesambandsins sem hefst á næsta ári.

Um er að ræða stigamótaröð þar sem nokkur alþjóðleg mót gefa stig og stigahæsti spilarinn samanlagt yfir árið hlýtur svonefndan WBO-meistaratitil.

Er Bridshátíð fyrsta mótið sem samþykkt hefur verið inn í þessa mótaröð og segir Bridgesamband Íslands að það sé afrakstur umsóknar Íslands og gæðaúttektar Alþjóðabridgesambandsins á starfsemi sambandsins. Skoðuð hafi verið kerfi, utanumhald gagna, gæði mótsins og styrkleiki spilara.

Hátt á fjórða hundrað spilara frá ýmsum löndum hafa skráð sig til leiks á Bridshátíð en Matthías Imsland, framkvæmdastjóri Bridgesambands Íslands, segir ljóst að áhugi á mótinu meðal erlendra spilara muni aukast til muna eftir að það verði orðið hluti af alþjóðlegu stigamótaröðinni.

Bridshátíð verður sett klukkan 19 í kvöld og mun Eliza Reid forsetafrú segja fyrstu sögnina. Eru allir sterkustu íslensku spilararnir meðal þátttakenda en einnig eru skráðir til leiks þekktir spilarar frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Norðurlöndunum.

Tvímenningsmót Bridshátíðar fer fram í kvöld og á morgun og eru 162 pör skráð. Sveitakeppni verður á laugardag og sunnudag og hafa 86 sveitir verið skráðar til þátttöku. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert