Vilja háskólaleið hjá Strætó

Vaka vill strætóleið sem hentar háskólafólki betur.
Vaka vill strætóleið sem hentar háskólafólki betur. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Stjórn Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta, hvetur Háskóla Íslands, Reykjavíkurborg og stjórn Strætó til að koma á fót sérstakri háskólaleið, sem myndi þjónusta stúdenta sem þurfa að ferðast utan háskólasvæðisins.

Lagt er til að auðvelda nemendum að sækja nám fjarri háskólasvæðinu, svo sem í Læknagarði, Skipholti eða Stakkahlíð en einnig að auðvelda íbúum stúdentagarða að ferðast með strætó, að því er fram kemur í fréttatilkynningu Vöku.

Innviðir séu þegar til staðar

„Vaka leggur til að nýrri strætóleið verði bætt við sem þjónusta myndi stúdenta og ganga á milli bygginga háskólans, stúdentagarða og tengjast öðrum leiðum. Kostnaðurinn við þessa auknu þjónustu væri lítill þar sem innviðir eru þegar til staðar og hugmyndin er í samræmi við stefnu Reykjavíkurborgar um bættar almenningssamgöngur.

Þetta myndi auka aðgengi stúdenta að námi og hafa í för með sér aukin þægindi fyrir stúdenta sem þurfa að skipta oft um vagn á leið til skóla.“

Leggst gegn gjaldskyldu bílastæða

Þá leggst Vaka gegn hugmyndum meirihluta Stúdentaráðs og HÍ um gjaldskyldu og fækkun bílastæða, þar sem útfærslan vegi að þeim sem þurfa að nýta sér bíla sem samgöngumáta.

„Jafnvel þó svo að sett yrði á fót sérstök háskólaleið hjá Strætó, eins og Vaka leggur til, þyrfti enn stór hluti stúdenta að koma akandi til skóla. Það er að segja íbúar í ytri byggðum höfuðborgarsvæðisins og á landsbyggðinni, foreldrar og þeir sem þurfa að sinna skyldum eins og vinnu.“

Vaka bendir þá á að í vetur hafi skapast slysahætta á háskólasvæðinu þar sem illa hafi verið staðið að mokstri, söltun og söndun. 

„Þetta gerði það að verkum að eini öruggi samgöngumáti stúdenta var bíllinn og því þversögn að hækka gjöld á akandi nemendur,“ segir í niðurlagi tilkynningarinnar.

mbl.is