Geti valdið launafólki miklum skaða

Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsamband Íslands.
Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsamband Íslands. mbl.is/Sigurður Bogi

Rafiðnaðarsambandið telur inngrip ríkissáttasemjara í kjaradeilu Eflingar við Samtök atvinnulífsins, óeðlileg og ótímabær, og fordæmir þessa framgöngu. 

„Samningaréttur er grundvallarréttur launafólks sem og rétturinn til þess að leggja niður störf til þess að veita eðlilegan og nauðsynlegan þrýsting á atvinnurekendur í þeirri von að ná ásættanlegum kjarasamningi fyrir félagsfólk sitt. Það er með öllu ólíðandi að ríkissáttasemjari grípi til miðlunartillögu án þess að allar aðrar mögulegar leiðir séu fullreyndar og í fullu samráði við aðila kjaradeilunnar. “

Þetta kemur fram í tilkynningu frá miðstjórn Rafiðnaðarsambandsins. 

Telja þau ljóst að samráð hafi ekki verið haft við annan samningsaðilann og samþykki viðkomandi ekki fengist fyrir framlagningu miðlunartillögu. 

Viðræður ekki fullreyndar

Kjaradeilan er ekki á þeim stað að samningaviðræður hafi verið fullreyndar. Stuttur tími er frá því að kjarasamningurinn rann úr gildi og langt frá því að neyðarástand hafi skapast. Því er augljóst að inngrip í kjaradeiluna á þessum tímapunkti er eingöngu til hagsbóta fyrir atvinnurekendur og því má draga í efa hlutleysi ríkissáttasemjara við þessar aðstæður.“

Sambandið skorar á ríkissáttasemjara að draga miðlunartillögu sína til baka og láta af „fordæmalausum aðgerðum gegn stéttarfélagi sem með lögmætum hætti leggur sitt af mörkum að ná ásættanlegum kjarasamningi fyrir sitt félagsfólk.“

Leggi fram tillögu atvinnurekenda

Jafnframt er ríkissáttasemjara bent á að honum beri að gæta jafnræðis á milli samningsaðila og „stilla sér ekki upp í hóp atvinnurekenda með jafn afgerandi hætti og raun ber vitni.“

Er því haldið fram að ríkissáttasemjari leggi hér með fram tilboð atvinnurekenda sem miðlunartillögu. Það sýni skort á tengingu við málstað verkalýðsfélagsins. 

Áréttað er hlutverk ríkissáttasemjara, að miðla málum og auðvelda deiluaðilum að ná kjarasamningum „en ekki að hlutast til um innihald kjarasamninga eða draga í efa félagslegt umboð samninganefndar verkalýðsfélags.“

Skaðað verulega traust til embættisins

Þá telur sambandið að hlutverk samninganefndar sé skýrt og sæki sitt félagslega umboð til síns félagsfólks á hverjum tíma. 

Ríkissáttasemjari hefur að mati miðstjórnar RSÍ skaðað verulega traust fjölmargra verkalýðsfélaga til embættisins og er ljóst að ef byggja á upp traust þá verður að draga framlagða miðlunartillögu til baka  tafarlaust. Auk þess þarf að tryggja að hlutlaus aðili leiði kjaradeilur á komandi vikum og mánuðum.

Ljóst þykir sambandinu að aðgerðir ríkissáttasemjara geti valdið launafólki á Íslandi miklum skaða, verði ekki brugðist við með afgerandi hætti strax. 

mbl.is