„Þetta var ótrúlega óþægilegt“

„Maður sá ekki neitt. Þetta var ótrúlega óþægilegt,“ segir Annie …
„Maður sá ekki neitt. Þetta var ótrúlega óþægilegt,“ segir Annie Marín. Ljósmynd/Aðsend

Slæmt skyggni hefur verið að hrjá landsmenn víða um land í dag og er höfuðborgarsvæðið engin undantekning þar á. Annie Marín Vestfjörð meistaranemi í Háskólanum í Reykjavík segir færðina við skólann hafa minnt á blindbyl á Hellisheiði þegar að hún lagði af stað um hádegisbil. Hefur en hún hefur aldrei upplifað annað eins áður innan borgarmarkanna. 

Hún segir ökumenn hafa verið í miklum vandræðum við að komast út af bílastæðinu við háskólann og að einn þeirra hafi hafnað uppi á hringtorginu við Nauthólsveg. Kalla þurfti á dráttarbíl til að fjarlægja ökutækið. 

„Það var ekki hægt að sjá yfir næsta bíl,“ segir Annie Marín í samtali við mbl.is. „Þegar að ég ætlaði að keyra fram hjá stúdentagörðunum hjá HR þá sá ég ekki bygginguna og ég sá ekki næsta bíl.“

Fóru löturhægt

Að sögn Annie Marínar keyrðu bílarnir löturhægt áfram til að forðast árekstra og önnur óhöpp í þessu slæma skyggni. Það var ekki fyrr en að bylinn lægði í örskamma stund að hún sá viðvörunarljósin blikka á bílnum fyrir framan, sem hvarf svo aftur inn í bylinn.

„Ef að ég dróst tvo metra fyrir aftan bílinn þá sá ég hann ekki lengur. Þetta var ótrúlega óþægilegt. Ég get ekki sagt hversu margir voru fyrir framan því ég sá bara í næsta bíl.“

Þá hafði einhver ökumaður gefist upp og lagt bílnum sínum við vegkantinn og sömuleiðis kveikt á viðvörunarljósunum.

„Maður sá ekki neitt. Þetta var ótrúlega óþægilegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert