Streptókokkar geta ágerst mjög hratt

Dæmi eru um að börn hafi þurft að leggjast inn …
Dæmi eru um að börn hafi þurft að leggjast inn á gjörgæslu vegna streptókokkasýkingar. Ljósmynd/Colourbox

Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að sendar hafi verið út leiðbeiningar til starfsfólks heilsugæslunnar um að taka frekar streptókokkapróf en ekki, ef einhver einkenni eru til staðar eða minnsti grunur um sýkingu.

Til eru alþjóðlegar leiðbeiningar um hvenær á að gruna streptókokka og meðhöndla en mælst hefur verið til þess að slakað sé á þeim leiðbeiningum vegna faraldurs streptókokka sem herjar á landsmenn. Telur Sigríður að flestir séu að fylgja þeim leiðbeiningum.

Dæmi eru um það á síðustu vikum að börn hér á landi hafi veikst alvarlega vegna streptókokkasýkingar og jafnvel þurft að leggjast inn á gjörgæslu. Í einhverjum tilfellum hafði verið leitað með börnin til læknis en ekki verið tekið streptókokkapróf.

Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu.
Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu. Ljósmynd/Lögreglan

Reyna að mæta börnum hratt og vel

Sigríður getur ekki svarað fyrir ákveðin tilfelli, en segir strepókokka geta verið mjög lúmska og sýking geti ágerst mjög hratt. „Þeir eru þá kannski með annarri sýkingu,“ útskýrir hún.

Spurð út það fyrirkomulag að hjúkrunarfræðingar taki á móti fólki á heilsugæslunni og meti hvort þörf sé á því að viðkomandi hitti lækni segir hún að veik börn séu yfirleitt metin af lækni.

„Ég held að flestir heilsugæslustöðvar séu þannig að veik börn eru skoðuð af læknum. Eða haft samráð við lækni.“

Sigríður segir að allir vilji reyna að koma í veg fyrir að sýkingar hjá börnum þróist út í alvarleg veikindi. „Þetta er eitthvað sem allir hafa áhyggjur af og við reynum yfirleitt að mæta börnunum hratt og vel.“

Ekki alltaf hægt að ná jákvæðu prófi

Hún bendir þó á að streptókokkar sitji ekki bara í hálsi, þeir geti verið víðar í líkamanum. „Það er ekkert alltaf víst að maður nái jákvæðu prófi sama hversu vel það er tekið fyrst. Það þarf að vera ákveðið magn af bakteríum til að ná því. Þetta er bara eins og allt annað, smá áskorun.“

Hraðpróf fyrir streptókokka voru á tímabili ekki til hér á landi um daginn, en þau eru komin aftur núna að sögn Sigríðar.

„Þá gátum við alltaf tekið sýklaræktun og gert klínískt mat og gátum sett börn á lyf á meðan beðið var eftir svörum. Þannig það skapaðist ekki neyðarástand þó það vantaði hraðpróf.“

Enn er mikið um að streptókokkar séu að greinast í börnum og Sigríður segir því mikilvægt að vera á varðbergi og hafa lágan þröskuld varðandi það að leita til læknis með börn sem sýna einkenni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert