Strætó með tíu daga varabirgðir

Aðeins tuttugu bílar Strætó ganga fyrir metani eða rafmagni.
Aðeins tuttugu bílar Strætó ganga fyrir metani eða rafmagni. mbl.is/Árni Sæberg

Strætó hefur lagt inn undanþágubeiðni til Eflingar vegna yfirvofandi verkfalls og stöðvun olíudreifingar. Varaeldneytisbirgðir Strætó duga fyrst um sinn en verði beiðninni hafnað mun það hafa veruleg áhrif í för með sér.

Í samtali við mbl.is segir Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó fyrirtækið öllum stundum eiga tíu til fjórtán daga eldsneytisbirgðir.

„Við fylgjumst bara með dag frá degi og tökum stöðuna,“ segir Jóhannes og bætir því jafnframt við að Strætó sinni akstri fyrir fatlað fólk og skólabörn og hafi sent inn undanþágubeiðni þess efnis. Þá sé undanþágubeiðni sem varðar akstur á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni í bígerð.

Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó.
Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó. Ljósmynd/Strætó

Aðspurður hvort metan- og rafmagnsbílar Strætó létti undir í aðstæðum sem þessum segir Jóhannes það ekki hafa mikið að segja ef verkfallið dregst á langinn. Rafmagns- og metanbílar Strætó eru 20 talsins af 160 bíla flota.

„Við erum ennþá bjartsýnir á að fá undanþágu því þetta er náttúrulega bara mikilvæg þjónusta fyrir þá sem að gegna mjög mikilvægum störfum eins og kom fram í Covid. Við þurftum að halda uppi fullri þjónustu til þess að fólk kæmist í vinnu,“ segir Jóhannes.

Fari allt á versta veg og undanþágubeiðnum Strætó hafnað segir Jóhannes eldneytisskömmtun og minnkun á þjónustu koma til greina.

„Við förum yfir það eftir helgi þegar við sjáum kannski meira hvað er að gerast, hvort við drögum úr tíðni eða minnkum akstur. Þannig það er svona allt uppi á borðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert