100 tonn af neyðarbirgðum til Tyrklands

Neyðarbirgðirnar samanstanda af 1.500 tjöldum og 8.400 teppum,
Neyðarbirgðirnar samanstanda af 1.500 tjöldum og 8.400 teppum, Ljósmynd/Stjórnarráðið

Fraktflugvél á vegum íslenskra stjórnvalda flaug í nótt með 100 tonn af neyðarbirgðum til jarðskjálftasvæðanna í Tyrklandi þar sem milljónir manna eru húsnæðislausar.

Utanríkisráðherra hefur einnig ákveðið að veita 50 milljóna króna í neyðaraðstoð til Sýrlands vegna ástandsins sem skapaðist þar eftir skjálftana fyrr í mánuðinum.

Neyðarbirgðunum, sem samanstanda af 1.500 tjöldum og 8.400 teppum, var flogið frá Lahore í Pakistan og áætlað er að vélin lendi síðdegis í dag í Adana í Tyrklandi.

Fastanefnd Tyrklands hjá Atlantshafsbandalaginu óskaði eftir aðstoð bandalagsríkja við flutning neyðarbirgðanna og kom Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri bandalagsins, beiðninni á framfæri í lok fundar varnarmálaráðherra bandalagsins 15. febrúar, að því er segir í tilkynningu.

„Staðan á jarðskjálftasvæðunum í Tyrklandi er skelfileg. Ísland tók virkan þátt í björgunarstarfinu þar sem okkar fólk frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg vann fórnfúst starf fyrstu dagana eftir jarðskjálftana. Nú aðstoðum við með því að sjá um flutninga á 100 tonnum af neyðarbirgðum til Tyrklands, tjöld og teppi fyrir fólk sem misst hefur allt sitt,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra, í tilkynningunni.

„Við megum ekki gleyma fólkinu í Sýrlandi, þar sem stríð hefur staðið yfir í tólf ár og leitt af sér miklar hörmungar fyrir íbúana. Jarðskjálftarnir eru enn eitt höggið fyrir þessar brotthættu byggðir og þörfin fyrir aðstoð alþjóðasamfélagsins aldrei verið brýnni,“ segir Þórdís Kolbrún jafnframt um framlagið til Sýrlands.

Framlaginu er veitt í svæðasjóð OCHA fyrir Sýrland sem er ætlað að auka skilvirkni mannúðaraðstoðar á svæðinu og einnig færa aðstoðina nær þeim sem hana þurfa.

mbl.is