Yfir 180 handtökuskipanir vegna skjálftans

Yfir 160 þúsund byggingar í Tyrklandi hrundu eða skemmdust mikið …
Yfir 160 þúsund byggingar í Tyrklandi hrundu eða skemmdust mikið eftir skjálftana. AFP/Bulent Kilic

Fleiri en 600 manns sæta rannsókn í Tyrklandi vegna bygginga sem hrundu í jarðskjálftunum sem riðu yfir Tyrkland og Sýrland 6. febrúar. Tala látinna er komin yfir 50 þúsund.

Bekir Bozdag, dómsmálaráðherra Tyrklands, sagði í gær að 184 hefðu verið handteknir í tengslum við málið, þar á meðal byggingaverktakar og fasteignaeigendur, að því er BBC greinir frá. Yfir 160 þúsund byggingar hrundu eða skemmdust mikið eftir skjálftana.

Þá hefur borgarstjóri einnar borgar skammt frá þar sem skjálftinn reið yfir einnig verið handtekinn.

Rannsóknin er orðin talsvert umfangsmeiri, en fyrir tveimur vikum greindu yfirvöld frá því að 113 handtökuskipanir hefðu verið gefnar út.

Erdogan kennir örlögunum um

Sérfræðingar höfðu í mörg ár varað við því að spilling og stefna stjórnvalda hefðu þær afleiðingar að margar nýjar byggingar væru ekki öruggar.

Stjórnarandstæðingar saka ríkisstjórn Recep Tayyip Erdogans forseta um að hafa ekki framfylgt byggingarreglugerð. Erdogan hefur viðurkennt að gallar kunni að vera á hönnun bygginganna, en virðist kenna örlögunum um umfang hamfaranna.

„Svona hlutir hafa alltaf átt sér stað. Þetta er hluti af áætlun örlaganna,“ sagði forsetinn í nýlegri heimsókn á svæðið.

Nú þegar kosningar í landinu eru á næsta leiti er framtíð Erdogans í hættu eftir að hafa verið við völd í 20 ár.

mbl.is