Ógnaði gestum og starfsfólki með hnífi

Rétt fyrir miðnætti barst lögreglu tilkynning um mann á bar í hverfi 108 í Reykjavík sem ógnaði gestum og starfsfólki með hnífi. 

Í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir að maðurinn hafi verið handtekinn á vettvangi og vistaður í fangageymslu lögreglu. Hann er grunaður um vopnalagabrot, eignarspjöll, hótanir og vörslu fíkniefna.

Þó nokkur erill var hjá lögreglunni í nótt. Meðal annars barst tilkynning um eignarspjöll í Kópavogi rétt eftir klukkan 23.

Þar höfðu nokkrir aðilar skemmt rúður í bifreið með því að berja þær með áhaldi sem vitni sagðist líkjast hafnaboltakylfu.

Kveikt í ísskáp og hjólbörum

Rétt fyrir klukkan 22 barst tilkynning um íkveikju í Grafarvogi þar sem kveikt hafði verið í gömlum ísskáp og hjólbörum. Engin hætta skapaðist af brunanum og engin slasaðist vegna hans.

Um klukkan hálf þrjú barst tilkynning um innbrot í verslun í Kópavogi. Þar hafði gler verið brotið í bílalúgu og sjóðsvél og posatölvu stolið.

Stuttu síðar var aðili handtekinn vegna málsins og hjá honum fannst þýfið úr innbrotinu. Sá var vistaður í fangageymslu lögreglu.

Þá var ökumaður handtekinn í Breiðholti grunaður um akstur undir áhrifum áfengis, en sá gaf öndunarpróf með niðurstöðuna 3,02‰ sem er gríðarlega hátt (rúmlega sexföld refsimörk). Sá var látinn laus að lokinni blóðsýnatöku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert