Rannsókn á Inga Frey víðtækari

Ingi Freyr Vilhjálmsson og svarið sem héraðssaksóknara barst um rannsóknina.
Ingi Freyr Vilhjálmsson og svarið sem héraðssaksóknara barst um rannsóknina. mbl.is/Samsett mynd

Lögreglustjórinn á Norðurlandi segir Inga Frey Vilhjálmsson, blaðamann á Heimildinni, hafa gert meira en að taka á móti tölvupósti í svonefndu símastuldsmáli.

Ingi Freyr Vilhjálmsson, blaðamaður á Heimildinni (áður Stundinni) er grunaður um að hafa notað gögn úr síma Páls Steingrímssonar, skipstjóra hjá Samherja, sem hafði verði afritaður. Þá er Ingi Freyr jafnframt til rannsóknar vegna þess hvernig staðið var að afritun símans.

Þetta kemur fram í svari Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra til Ólafs Þórs Haukssonar héraðssaksóknara, sem spurt hafði um mál Inga Freys, en þær bréfaskriftir má finna í fylgigögnum með greinargerð hjá Landsrétti.

Sem kunnugt er hefur Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra haft til rannsóknar mál þar sem fyrrnefndur Páll var lagður inn á sjúkrahús vegna eitrunar og sími hans tekinn ófrjálsri hendi á meðan hann lá þar meðvitundarlaus. Síminn var svo afritaður að einhverju eða öllu leyti áður en honum var skilað aftur til Páls. Á grunni gagna, sem afrituð voru úr síma Pálsvar fjallað um það sem kallað var skæruliðadeild Samherja í bæði Stundinni og Kjarnanum og var mikið fréttaefni vorið 2021.

Fram hefur komið að fimm fjölmiðlamenn, frá Ríkisútvarpinu og Heimildinni (sameinuðum miðli Kjarnans og Stundarinnar) hafa réttarstöðu sakbornings í málinu.

Bræður berjast við Örnu á sitthvorum vígstaðnum

Fyrirspurn Ólafs Þórs héraðssaksóknara til lögreglustjórans er þó út af öðru máli, sem nú tengist fyrrnefndri rannsókn á símastuldinum. Eins og Morgunblaðið fjallaði um í byrjun árs stefndi Arna Bryndís McClure, yfirlögfræðingur Samherja, héraðssaksóknara fyrir dóm þar sem þess var krafist að rannsókn á henni yrði hætt vegna ætlaðra brota Samherja eða starfsmanna fyrirtækisins í Namibíu.

Arna hefur haft réttarstöðu sakbornings í því máli í þrjú ár. Sá sem stýrir rannsókninni er Finnur Þór Vilhjálmsson, saksóknari hjá héraðssaksóknara, en hann er bróðir Inga Freys blaðamanns. Lögmaður Örnu nefndi meðal annars að Finnur Þór væri vanhæfur vegna vensla við Inga Frey, sem skrifað hefur mikið um málið og var einn af þeim sem hafði umsjón með samantekt gagna sem afhent voru héraðssaksóknara.

Barbara Björnsdóttir héraðsdómari hafnaði þó kröfu Örnu í síðustu viku. Í úrskurði dómarans kemur meðal annars fram að Ingi Freyr hafi ekki persónulega hagsmuni af því hver niðurstaða rannsóknarinnar (á Samherja) verður og ekki sé að sjá að skrif hans séu þess eðils að hafa áhrif á hæfi Finns Þórs til að starfa við rannsókn málsins.

Sama dag og niðurstaðan var birt var greint frá því að Ingi Freyr hefði stöðu sakbornings í rannsókn á máli þar sem Arna kemur við sögu.

„Hann liggur undir grun um refsivert afbrot í garð skjólstæðings míns. Persónulegri verða hagsmunirnir vart,“ sagði Halldór Brynjar Halldórsson, lögmaður Örnu, í samtali við ViðskiptaMoggann í morgun. Hann staðfesti jafnframt að úrskurðurinn yrði kærður til Landsréttar.

Lögreglan hafði frumkvæði að réttarstöðu

Áfrýjun á þeim úrskurði er tilefni fyrirspurnar Ólafs Þórs til lögreglustjórans á Norðurlandi eysta. Í tölvupósti, sem sendur var í gærmorgun spyr Ólafur Þór meðal annars um réttarstöðu Inga Freys, hvenær hann hafi verið boðaður í yfirheyrslu og hvort sú yfirheyrsla hafi farið fram, hvort hann hafi verið kærður eða hvort að réttarstaðan sé til komin af frumkvæði lögreglunnar, hvort að Arna eigi aðild að málinu og hvaða stöðu hún hafi í því.

Lögreglustjórinn svaraði póstinum fyrir hádegi í gær, þriðjudag. Þar kemur fram að Ingi Freyr hafi réttarstöðu sakbornings og ástæðan fyrir því sé sú að hann hafi notað gögn úr fyrrnefndu síma og vegna þess hvernig staðið var að afritun símans. Þá kemur jafnframt fram að hann hafi fengið tölvupósta frá öðrum aðila málsins.

Fram kemur að Ingi Freyr hafi verið boðaður í yfirheyrslu hinn 8. mars sl. og að yfirheyrslan hafi farið fram 14. mars, þar sem ekki hafi náðst í Inga Frey á fyrri sitgum málsins. Þá kemur jafnframt fram að Inga Frey hafi verið gefin réttarstaðan að frumkvæði embættis lögreglustjórans á Norðurlandi eystra. Loks er þar greint frá því að Arna hafi stöðu brotaþola í málinu en að hún sé ekki kærandi. Hins vegar kemur fram að hún hafi kært einn sakborning í málinu fyrir umsáturseinelti, en ekkert kemur nánar fram um það eða um hvern þar er um að ræða.

Þegar fréttir bárust af því að Inga Frey hefði verið gefin réttarstaða sakbornings sendi Blaðamannafélag Íslands frá sér ályktun þar sem staða hans var fordæmd.

„Samkvæmt upplýsingum sem Ingi Freyr fékk hjá lögreglu við skýrslutöku fyrir fáeinum dögum er sakarefnið það eitt að hann var viðtakandi tölvupósts,“ segir í ályktun Blaðamannafélagsins, en af bréfaskriftum lögreglustjórans og héraðssaksóknara má ljóst vera að sakarefnið er annað og meira.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert