Mótmælir „vaxtabrjálæði“ Seðlabankans

Ásthildur Lóa Þórsdóttir er þingmaður Flokks fólksins.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir er þingmaður Flokks fólksins. mbl.is/Sigurður Bogi

Ásthildur Lóa Þórisdóttir, þingmaður flokks Flokks fólksins mótmælir harðlega því sem hún kallar „vaxtabrjálæði“ Seðlabankans á Alþingi í dag og vísar til stýrivaxtahækkana Seðlabankans. Hún leggur til að ríkisstjórnin setji þess í stað lög um tímabundinn þrepaskiptan skyldusparnað til þess að slá á einkaneyslu. 

„Hann yrði að vera þannig að þeir sem mest hafa og viðhalda þenslunni myndu spara mest og þannig myndi lausafé í umferð minnka og þar með slá á verðbólguna. Með þessu gæti Seðlabankinn sleppt því að beita vaxtatækinu af jafn mikilli hörku og nú þar sem skyldusparnaðurinn myndi minnka ráðstöfunartekjur heimilanna eins og vaxtahækkunum er ætlað að gera,“ segir Ásthildur.

Hún bætir við að með þessu væri hægt að hlífa tekjulægstu tíundunum að miklu eða öllu leyti. Þunginn myndi færast þangað sem hún telur hann eiga heima, þ.e. hjá þeim sem mest hafa á milli handanna og skulda mest. Þeir valdi meiri þenslu en þeir sem rétt eiga í sig og á.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir einkaneyslu og launahækkanir hafa hækkað umfram …
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir einkaneyslu og launahækkanir hafa hækkað umfram framleiðnivöxt síðustu ár. mbl.is/Hákon

Launahækkanir of miklar

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði hugmyndina um þrepaskiptan skyldusparnað alls ekki galna þegar hún spurði hvort von væri á raunhæfum aðgerðum frá ríkisstjórninni til að verja heimilin gegn verðbólgu. 

„Hún gæti komið að góðum notum við aðstæður sem þessar en það þyrfti að fara mjög vandlega yfir útfærsluna,“ sagði Bjarni og bætti við að hugmyndin um þetta sýndi að einkaneysla og launahækkanir hafi hækkað langt umfram framleiðnivöxt á undanförnum árum.

„Launahækkanir undanfarin tvö ár eru einfaldlega of miklar. Spennustigið hefur verið þannig að það hefur verið nokkuð mikið launaskrið,“ og bætti við að á sama tíma yrði ríkið að finna leiðir til að nýta fjármuni betur, auka hagkvæmni og skilvirkni í opinberum rekstri. 

mbl.is