Bentu hvort á annað í skattsvikamáli

Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur og féll dómur …
Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur og féll dómur í síðustu viku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tveir karlmenn, annar um sjötugt og hinn tæplega sextugur, voru í síðustu viku dæmdir hvor til að greiða um 30 milljónir í sekt og í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi vegna skattsvika í tengslum við greiðslu virðisaukaskatts og staðgreiðslu við rekstur einkahlutafélags. Voru mennirnir stjórnendur félagsins, en kona sem hafði séð um bókhald þess var hins vegar sýknuð.

Í dómi Héraðsdóm Reykjavíkur kemur fram að brot mannanna nái til áranna 2018 og 2019. Stóðu þeir ekki skil á 14,3 milljónum í virðisaukaskatt á tímabilinu og 17,2 milljónum í staðgreiðslu annars þeirra og 18,6 milljónum vegna hins.

Fyrri maðurinn, Magnús Líndal Sigurgeirsson, var stofnandi einkahlutafélagsins og skráður framkvæmdastjóri til ársins 2019. Hinn, Guðmundur Örn Jensson, keypti reksturinn í september 2019 og var þá skráður framkvæmdastjóri. Í dóminum kemur hins vegar fram að hann hafi jafnframt verið daglegur stjórnandi félagsins með Magnúsi fram að þeim tíma þó hann hafi ekki verið skráður sem slíkur.

Öll þrjú neituðu sök við rekstur málsins og sögðust ekki bera ábyrgð á skattaskilum félagsins. Vísuðu Guðmundur og konan á Magnús, en Magnús á þau til baka varðandi ábyrgðina. Óumdeilt var hins vegar að greiðslurnar hefðu ekki verið greiddar.

Komu vitni fyrir dóminn, meðal annars fyrrverandi starfsmenn félagsins, en þegar mest var störfuðu þar átta manns. Segir í dómi héraðsdóms að þegar öll gögn og framburður vitna sé metinn heildstætt sé ljóst að bæði Guðmundur og Magnús hafi tekið virkan þátt í stjórn félagsins til september 2019, en eftir það seldi Magnús félagið eins og fyrr segir. Segir í dóminum að skyldur framkvæmdastjóra séu ótvíræðar varðandi skattaskil og því sé ábyrgð Magnúsar augljós til viðbótar við að Guðmundur hafi komið að stjórnun félagsins og meðal annars séð um samningagerð með Magnúsi. Þá hafi hann haft aðgang að bankareikningum félagsins.

Niðurstaða dómsins er að ósannað sé að konan, sem var í 25% starfi hjá fyrirtækinu, hafi verið daglegur stjórnandi hjá félaginu og þar með ekki borið ábyrgð á skattskilum félagsins. Er hún því sýknuð í málinu.

Magnús og Guðmundur hafi hins vegar borið sameiginlega ábyrgð fram til september 2019 þar sem þeir stóðu saman að daglegum rekstri félagsins. Voru þeir sem fyrr segir dæmdir í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi. Þá var Magnúsi gert að greiða 29,7 milljónir í sekt og Guðmundi 31,1 milljón. Samtals þurfa þeir jafnframt að greiða 6,4 milljónir í málsvarnarlaun, en 3,6 milljóna málsvarnarlaun konunnar greiðast úr ríkissjóði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert