Kynferðisbrot gegn barni í Reykjadal til rannsóknar

Málið liggur nú á borði ákærusviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Málið liggur nú á borði ákærusviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Meint kynferðisbrot í sumarbúðum í Reykjadal liggur nú á borði ákærusviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að sögn Bylgju Hrannar Baldursdóttur, lögreglufulltrúa hjá kynferðisbrotadeild. Meintur gerandi var starfsmaður í sumarbúðunum.

Sumarbúðirnar í Reykjadal, eru reknar af Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra. Einar Arnar Jónsson og Halla Ingibjargar Leonhardsdóttir, foreldrar fatlaðrar stúlku sem varð fyrir meintu broti í sumarbúðum í Reykjadal, lýstu brotinu og meðferð málsins í samtali við Heimildina.

Meintur gerandi starfsmaður í sumarbúðunum

Starfsmaður á svæðinu á að hafa komið inn í herbergi stúlkunnar og brotið á henni. Starfsmaðurinn á að hafa lokað sig og stúlkuna inn í herbergi, fært hana upp í rúm og snert hana undir fötum hennar á óviðeigandi hátt.

Aðrir starfsmenn hafi komið inn í herbergið og starfsmanninum brugðið. Spurð hvað hefði gerst lýsti stúlkan því þá hvað starfsmaðurinn hefði gert.

Foreldrar stúlkunnar hafa út á ýmislegt að setja í meðferð á máli dóttur þeirra og benda meðal annars á hve seint málið var tilkynnt til barnaverndarnefndar og að þeim hafi ekki verið boðin réttargæslumaður, en því eiga brotaþolar kynferðisbrots rétt á.

Starfsmaðurinn einnig fatlaður

Vísir greinir frá í samtali við Andreu Róa Sigurbjörns, forstöðumann sumarbúðanna í Reykjadal, að starfsmaðurinn sem um ræðir sé einnig fatlaður og hafi sinnt garðyrkjustörfum í sumarbúðunum.

Í samtali við mbl.is segir Bylgja Hrönn að ekki hafi verið fleiri til rannsóknar en þessi tiltekni einstaklingur.

Aðspurð kvaðst hún ekki geta tjáð sig um hvort um væri að ræða andlega fötlun sem starfsmaðurinn glími við, en að málið væri rannsakað á sama hátt hvað sem því líður. 

Ekki hefur náðst í fulltrúa hjá ákærusviði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

mbl.is