Leggja mat á fýsileika jarðganga milli lands og Eyja

Frá Vestmannaeyjum.
Frá Vestmannaeyjum. mbl.is/Sigurður Bogi

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra hefur ákveðið að skipa starfshóp sem ætlað er að leggja mat á fýsileika jarðganga milli lands og Vestmannaeyja, byggt á fyrirliggjandi vísindagögnum og nýjustu upplýsingum.

Starfshópurinn hefur það hlutverk að setja fram sviðsmyndir um mismunandi útfærslur og kosti og galla hverrar fyrir sig. Þá metur starfshópurinn arðsemi framkvæmdarinnar. Loks á starfshópurinn að leggja fram kostnaðarmetna áætlun um þær jarðfræðilegu rannsóknir, sem og aðrar rannsóknir, sem framkvæma þarf, svo hægt verði að leggja endanlegt mat á fýsileika framkvæmdarinnar, að því er segir á vef ráðuneytisins. 

Starfshópurinn verður skipaður fimm sérfræðingum, þar af einum tilnefndum af Vestmannaeyjabæ og einum tilnefndum af Vegagerðinni.

Starfshópurinn skilar ráðherra niðurstöðum sínum fyrir lok árs 2023, segir jafnframt. 

mbl.is